Bækurnar
- Þríleikurinn
- Bók 1
- Bók 2
- Bók 3
Höfundurinn
- Um Pullman
- Viðtal 1
- Viðtal 2
Kvikmyndir
- Mynd 1
- Myndir 2+3
- Dómar
Annað
- Fylgjur
- Orðasafn
- Persónur
- ENGLISH
Vefmeistari

 

Fyrstu dómar
Uppáhalds Pullman síðan mín, Bridge to the Stars hefur birt dóm um myndina (eftir vefmeistarann Will) og hér fyrir neðan er að finna helstu atriði úr þeim dómi.

Will telur að myndin sé ekki við hæfi barna yngri en 12-13 ára.

Myndin hefst á frásögn Serafínu Pekkala (Evu Green) sem útskýrir tilvist samhliða heima. Stjörnuþokur og duft þyrlast um myndavélina - og eins og Serafína bendir á snýst sagan að miklu leyti um duft.

Will telur fyrsta hluta myndarinnar („Oxford-hlutann") vera bestan. Lýra og Roger falla mjög vel saman á hvíta tjaldinu. Aðdáendum Lýru til ánægju skal tekið fram að hinar villtu hliðar hennar (að spýta á fræðimenn og þannig) hafa ekki verið þurrkaðar út í ritskoðun.

Dakota Blue Richards leikur Lýru mjög vel og hún hefur mjög góða stjórn á andlitshreyfingum, sérstaklega miðað við aldur. Hún grettir sig á meðan birnirnir berjast, hlær glettilega þegar við á og er bara mjög góð Lýra, sérstaklega þegar hún platar einhvern (sem er auðvitað besti hæfileiki hennar). Dakota er þungamiðja myndarinnar og það hefði ekki verið hægt að finna betri leikara meðal þeirra þúsunda sem buðu sig fram. Og Dakota tekst vel að túlka heldur grófan talmáta Lýru.

Fylgjurnar koma líka mjög vel út. Will tekur sem dæmi þegar Roger hittir Lýru aftur á Bölvangi, nudda Pantalæmon og Salcilía saman nefjum. Hönnunin er mjög góð og engar ótrúlegar hreyfingar sjást hjá dýrunum. Talmál þeirra - sem gæti hafa valdið vandræðum - er mjög vandað og trúlegt.

Af fullorðnu leikurunum finnst vefmeistara Sam Elliot sá besti. Hann hefur oft leikið kúasmala áður og er frábær í hlutverki Lee Scoresbys. Föðurlegt samband hans við Lýru er vel gert og senurnar sem þau leika saman eru einar þær bestu í myndinni. Húmorinn hans, innan um birni í herklæðum og fljúgandi nornir, hittir í mark.

Nicole Kidman er heillandi að vanda, í gylltu kjólunum sínum, og augnaráð hennar er ískalt undir sumum kringumstæðum, til dæmis þegar hún og skólameistarinn í Jórdanarskóla horfast í augu. Ekki er erfitt að ímynda sér hana gefa skipanir um morð ungra barna.

Ian McKellen hefur víst fengið gagnrýni fyrir að veita Jóreki Byrnissyni rödd sína. Sumum finnst röddin of „leikræn“ og ekki koma út nógu eðlilega en Will taldi röddina vinna á eftir því sem leið á myndina. Búið er að bæta við hana góðum bassa og hún verður áhrifaríkari fyrir bragðið.

Félagi minn telur að ekki sé nógu góð heildarblær yfir myndinni. Senurnar fá ekki nægan tíma til að njóta sín og áhorfandinn fær ekki að melta atburðarásina. Eftir góða Oxford-hlutann fara hjólin að snúast svo hratt, sérstaklega eftir ísbjarnabardagann. Jórekur sigrar Jöfur, lýsir sig konung, snýr sér að Lúry og segir: „Nú ætla ég að fara með þig til Bölvangs." Og þau leggja af stað.

Will heldur að Æðstaráðið sé misheppnað ilmmenni í myndinni og öll heimspekin að baki þessari sterku stofnun sem ræður Bretlandi og Evrópu, falli milli þilja. Útkoman er eins konar bófaband sem virðist ekkert markmið hafa. Þó er leikaranum BcBurney gefið nokkuð hrós fyrir að túlka Fra Pavel, útsendara Æðstaráðsins sem á að eitra fyrir Asríel lávarði - og samskiptin milli hans og lávarðarins eftir tilraunina eru konfekt fyrir augað (sem mætti vera meira af í myndinni).

Einnig vekur félagi minn máls á þeirri ákvörðun aðstandenda myndarinnar að gera amburmagn - sem er í bókunum annað nafn yfir rafmagn - að einhvers konar stórkostlegu vísindaskáldsögufyrirbæri, en það virkar samt. Annað er misheppnað, eins og ljósmyndir í fórum frú Coulter, sem hreyfast í anda Harry Potter, og verða fyrir vikið ótrúverðugar.

Hér vitna ég beint í Will: „Gyllti áttavitinn hefur alla þá eiginleika sem þarf til að slá í gegn. Þetta er ekki Hringadróttins saga - en ekki heldur Eragon. Aðdáendur bókanna munu njóta þess að sjá margar senur úr bókunum á tjaldinu - sérstaklega í Oxford - en tilfinningin í bókunum er ekki í myndinni. Það er ekki neitt yfirþyrmandi ævintýri vegna þess að lítill tími vinnst til að stoppa og virða hlutina fyrir sér. Atvik eins og það þegar Lýra og Pan sjá stjörnuhrap á þilfari Nooderlicht hefðu fallið í góðan jarðveg. Hlutinn þar sem Lýra fer á harðastökki á baki Jóreks yfir túndruna, sem varð til þess að New Line féllst á að framleiða myndina - var næstum klipptur út." Hann segir að hvert atvikið reki annað og nokkrar rólegar senur hefðu gert myndina betri. Hún tekur heila tvo tíma, svo það er nægilegt svigrúm.

Að lokum segir vill: „Sú ákvörðun að fjarlægja síðustu þrjá kaflana skemmir heildaráhrif myndarinnar - það er ekki mikið ögrandi við sögu sem segir frá því að börnum sé rænt og þeim er bjargað, sérstaklega þegar það er svo auðvelt, því nornirnar hjálpa Sígyptunum af engum sjáanlegum ástæðum og Sígyptunum tekst einhvern veginn að koma heilli rifflahersveit yfir snjóinn. Eins og er, endar myndin hreinlega á Lýru og Roger í loftbelg Lees, á leiðinni í norðurátt til að finna Asríel lávarð. Hið vafasama siðferði sem felst í dauða Rogers af höndum Asríels lávarðar og atriðið þegar það rifnar stórt gat inn í nýjan heim hefði gert mikið fyrir myndina - þá væri hún stórkostleg, og ekki bara góð.

Nú hefur undirrituð ekki séð myndina en það væri gott ef einhverjir lesendur vildu senda inn sinn dóm. Sendið hann með tölvupósti til mín (anna-hjá-ritlist.is). Ég birti hann hér.