Bækurnar
- Þríleikurinn
- Bók 1
- Bók 2
- Bók 3
Höfundurinn
- Um Pullman
- Viðtal 1
- Viðtal 2
Kvikmyndir
- Mynd 1
- Myndir 2+3
- Dómar
Annað
- Fylgjur
- Orðasafn
- Persónur
- ENGLISH
Vefmeistari

 

 

UM ÞRÍLEIKINN
„His Dark Materials“

Um bækurnar
Þeir sem
njóta þess að láta bækur heilla sig og hrifsa sig með sér inn í annan heim, þeir sem vilja gleyma stað og stund og upplifa eitthvað allt öðruvísi en þeir hafa nokkurn tíma áður upplifað, ættu að lesa þessar þrjár óvenjulegu bækur.Hvort sem þú ert 10 ára eða 90 ára, hlýturðu að hafa gaman af myrkraefna-þríleik Philips Pullman. Ég, þýðandinn (Anna Heiða Pálsdóttir), féll kylliflöt fyrir fyrstu bókinni, Gyllta áttavitanum (Northern Lights í Bretlandi, The Golden Compass í Bandaríkjunum) þegar ég las hana árið 1998. Ég las hana heilan dag og heila nótt og gat ekki sofnað fyrr en lestrinum var lokið.Láttu líka heillast! Farðu með Lýru til London, til Noregs og Svalbarða, fylgdu henni í annan heim þar sem hún kynnist Will. Flakkaðu með þeim á milli hinna ýmsu heima og loks til lands hinna framliðnu. Leyfðu þér að gráta með þeim og hlæja með þeim. Ævintýraheimur Lýru er flóknari, frumstæðari, dýpri, sorglegri en samt glaðari og vonbetri en heimur Harry Potter.

Þríleikur Philip Pullmans, HIS DARK MATERIALS, hefur vakið mikla athygli í bókmenntaheiminum.

Fyrstu tvær bækurnar, Northern Lights (eða The Golden Compass eins og hún heitir í U.S.A.) og The Subtle Knife eru þegar komnar út og sú þriðja, The Amber Spyglass er nýkomin út (haustið 2000).

Fyrsta bókin kom út á íslensku hjá Máli og menningu haustið 2000 - og er titill hennar Gyllti áttavitinn. Titill hinna tveggja bókanna verður sennilega Hnífurinn makalausi og Sjónaukinn fráni.

Titill þríleiksins á ensku, HIS DARK MATERIALS á rætur sínar að rekja til Paradísarmissis John Milton, en þessar línur úr „Book II“ í ljóðinu eru á fyrstu síðu ensku útgáfunnar:

Into this wild abyss,
The womb of nature and perhaps her grave,
Of neither sea, nor shore, nor air, nor fire,
But all these in their pregnant causes mixed
Confusedly, and which thus must ever fight,
Unless the almighty maker them ordain
His dark materials to create more worlds,
Into this wild abyss the wary fiend
Stood on the brink of hell and looked a while,
Pondering his voyage . . .

Sr. Jón á Bægisá þýddi Paradísarmissi á sínum tíma og kom þýðingin út árið 1828. Þannig þýddi sr. Jón þessar ljóðlínur:

Svo stóð Satan nú
í sögðu djúpi,
í hulstri heims vors,
sem honum máske
verðr gjört að gröf,
þar grund er engin,
ei lopt, ei lögr,
ei loga brími;

Heldr frumefni
ok fræ til þeirra;
hvat við annat allt
í óröð blandat,
er at eylífu
aldrei sættist,
utan Almættit
af þeim nýar
vili veraldir
verða láta.

Við þat villudjúp
varð enum slæga
Bölverk biðleikat,
barmi vítis á;
starandi stóð hann
um stundar sakir,
og virðti fyrir sér
vandan gáng.

Sölvi Björn Sigurðarson þýddi ljóðlínurnar á íslensku fyrir íslensku útgáfu Gyllta áttavitans, og hann gerði það með afbrigðum vel:

Oní hið ólma djúp,
í sköpunarverksins skaut og kannski gröf,
hvar ei sér haf né land né loft né eld,
en frjómagn alls þess fært í líki eitt
af hendingu, hvar þeim ber að berjast æ
nema hinn mikli faðir fái þeim
sín myrku efni í myndun nýrra heima,
oní hið ólma djúp leit fjandinn flár
í stundarsvip og stóð á heljarþröm
og grundaði för af gát . . .

Þarna kemur Björn með hugtakið „sín myrku efni“ sem þýðingu á „His dark materials“ - sem er einmitt heiti þríleiksins á ensku.

Hugmyndina um þessi myrku efni hefur Philip Pullman notað sér í skrifum sínum á þríleiknum, og er Asríel lávarður (eins konar Satan) að reyna að nýta sér þessi myrku efni, eða „Duft“ sem aðrir aðilar girnast einnig.

Hlutverk Lýru, ungu stúlkunnar í bókinni, er að hindra þessi ætlunarverk og bjarga veröldinni frá glötun. Lýra er fulltrúi hins góða sem berst gegn hinu illa.

Fyrsta bókin í þríleiknum - Gyllti áttavitinn- gerist í heimi Lýru, sem er ekki ósvipaður okkar heimi.

Önnur bókin, The Subtle Knife gerist í heimi okkar. Þriðja bókin, The Amber Spyglass, flakkar á milli þessara heima.