Kennari: Anna Heiða Pálsdóttir, PhD
 
-HEIM
-UM NÁMSKEIÐIÐ
-Stutt lýsing
-Kennsluáætlun
-UM KENNARANN
-Æviágrip / ritstörf
-VERKEFNI
-Námsmat
--1. Umræður
--2. Hópverkefni
--3. Próf í mars
--4. Lokaritgerð
-LESEFNI
-Yfirlit
-ÍTAREFNI
-Greinar
-Lokaritgerðir
-Fræðibækur
-TENGLAR
-EINKUNNIR
-FYRIRSPURNIR
-„FEEDBACK“

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

VELKOMIN
á heimasíðu barnabókanámskeiðsins ...


Sunnudagur 23. maí 2004 - ALLAR EINKUNNIR KOMNAR
Afsakið, ég var kölluð í skyndi vegna vinnu á Reyðarfjörð sem er dásamlegur staður en ég hafði þar ekkert tæki í höndunum til að koma ritgerðum inn á Netið (FTP-prógramm). Nú hef ég sett allar einkunnir inn og skila þeim til heimspekideildar á morgun. Smellið hér til að skoða þær.

Enn vantar ritgerðir frá 3 nemendum - sem ég vona að liggi ekki einhvers staðar á röngum stað. Ég hef alla vega hvatt þessa 3 nemendur (með kennitölur sem enda á 82-5339, 77-3649 og 82-3069) til að senda inn ritgerð en hef ekkert heyrt, svo ég verð að skila inn 0 sem einkunn fyrir ritgerðina þeirra til heimspekideildar. Aðrir nemendur (71-4579 og 50-2209), hafa verið í sambandi við mig og útskýrt að þeir muni ekki ná að skila inn ritgerð vegna anna.

Ég þakka ykkur öllum hjartanlega fyrir samveruna í vetur. Möppurnar verða í LBS til 1. júlí (vegna fjölda áskorana) og þessi vefur stendur uppi til 1. júlí nk. Vonandi sjáumst við einhvern tíma aftur og vonandi helst þessi áhugi ykkar á barnabókmenntum um aldur og ævi.

Fimmtudagur 20. maí 2004 - Flestar einkunnir komnar inn
Ég er búin að vera lengi að fara yfir ritgerðirnar en þær eru langar, og ég er svo nákvæm að skila með þeim matsblaði, svo þið vitið nákvæmlega hvað mér þykir gott og hvað slæmt.

En eins og ég lofaði áttu einkunnirnar inn í dag. Ég er á lokasprettinum með örfáar ritgerðir og einkunnirnar fyrir þær koma inn annað kvöld. Afsakið, þið sem lendið í því að bíða - en það er ekki vegna þess að ritgerðirnar séu slæmar, heldur annað hvort „extra-long“ eða bara neðst í bunkanum. En ég get ekki séð ritgerð hjá mér frá eftirtöldum aðilum:

82-5339 (búin að senda þessum nemanda tölvupóst)
77-3649 (búin að senda þessum nemanda tölvupóst)
71-4579 (var að heyra frá þessum nemanda, æ, æ, nær ekki að skila)
82-3069 (hef hvorki fengið fyrirlestur né ritgerð)

Jæja, smellið hér til að skoða einkunnirnar. Ég vona að ég hafi verið réttlát - en þið skulið vera viss um að ég ígrunda ávalllt mjög vel hvort nemandi eigi ekki örugglega betri einkunn skilið. Ég varð að standa við það sem ég sagði: ég dreg einn heilan frá einkunn ef nemandi hefur gerst svo djarfur að breyta texta í tilvitnun í bók. Ritgerðirnar munu liggja frammi í kassa í ljósritunarherbergi í anddyri Nýja-Garðs (heimspekideildar) frá mánud. 24. maí. Með þeim er matsblað frá mér.

Á mánudaginn, 24. maí, eru komnar 3 vikur frá síðasta skiladegi ykkar og þá skila ég einkunnum inn til Heimspekideildar.

INNILEGAR ÞAKKIR fyrir samveruna, öllsömul. Vonandi sjáumst við aftur.

Fimmtudagur 29. apríl 2004 - HEIMILDASKRÁ
Einn af nemendunum á námskeiðinu (Kristjana) bendir á ágæta síðu sem segir nokkuð mikið um heimildaskrána eins og ég vil hafa hana. Smelltu hér.

Kristjana bendir þó á að þarna vanti upplýsingar um vefsíður sem hafa engan höfund, t.d. www.bridgetothestars.net. Reynið að smella á upplýsingar eins og „ABOUT US“ eða „DISCLAIMER“.

Hér er t.d. ein tilvitnun úr doktorsritgerðinni minni:

Trubshaw, Bob. The Illusion of Landscape [Originally published in Mercian Mysteries No.24 August 1995]. At the Edge: Articles on archaeology, folklore and mythology, 2001 [cited 5 March 2001]. Available from http://www.indigogroup.co.uk/edge/illusion.htm.

Ef ekkert er að finna um höfund, noti titil vefsíðunnar. Hér er annað dæmi úr ritgerðinni minni:

Student Travel. Marokko, Atlasfjollin og Meski eydimörkin (“Marocco, the Atlas Mountain Range and the Meski Desert”). Ferdaskrifstofa studenta (“The Student Travel Agency”), 1999 [cited 12 May 2001]. Available from http://www.fs.is/studtravel/encount.htm.

Þetta þýðir af ef þið vitnið í vefsíðuna bridgetothestars.net, gætuð þið t.d. sagt í textanum: „Samkvæmt hefðbundinni túlkun stendur engillinn á sannleiksvitanum fyrir sendiboða, metorðastiga eða óhlýðni (Bridgetothestars.net)“.

Í heimildaskránni væri síðan:

Bridge to the Stars. „The Encyclopaedia - The Alethiometer.“ Bridge to the Stars 2004 [skoðað 29. apríl 2004]. Vefslóð: http://www.darkmaterials.net/index.php?d=encyclopaedia&p=alethiometer

Ekki gleyma deginum sem vefsíðan var skoðuð ...

Fimmtudagur 29. apríl 2004 - Einkunnir fyrir próf
Afsakið eins dags töf - mér tókst ekki að komast inn á Netið í gær. Nú eru einkunnir fyrir prófið komnar. Smellið hér. Rosalega hafið þið staðið ykkur vel! Það gerist varla að nemandi geti ekki svarað spurningu - og það ágætlega. Ég var að vonast til að geta fellt einn eða tvo (bara til að sýna að ég er ekki alltof „lin“) en það er bara ekki hægt. Þið hafið einfaldlega lesið svona vel og pælt svona mikið. Vonandi haldið þið áfram að vera með svona mikinn barnabókaáhuga.

Sjúkraprófseinkunnir eru líka komnar inn ...

Í fyrramálið fer ég með stóra kassann, með prófunum og fyrirlestrunum, raðað í stafrófsröð, í heimspekideild. Þar getið þið séð hvað liggur að baki einkunnargjöfinni. Endilega nálgist dótið ykkar þar. Og á endanum fara lokaritgerðirnar þangað.

Jæja, nú svara ég fullt af tölvupósti í hólfinu mínu (varðandi lokaritgerðir)

Mánudagur 26. apríl 2004 - Einkunnir fyrir fyrirlestra
Þá eru einkunnir komnar inn fyrir fyrirlestra. Smellið hér. Vinsamlegast athugið:

 • Ykkur finnst ég e.t.v. gefa mjög háar einkunnir og haldið að ritgerðar- og prófeinkunnir verði háar í sama hlutfalli. Ég tek fram að þeir sem fóru vel eftir fyrirmælum og nenntu að vinna fyrirlesturinn sinn vel, fá góða einkunn.
 • Ef þú ert ekki sátt(ur) þá við einkunn sem ég hef gefið, ath. að ég hefti MATSBLAÐ við hvern einasta fyrirlestur, þar sem ég gef greinargóða skýringu á mati mínu - og vísa til þeirra krafna sem voru gerðar til fyrirlesturs.
 • Fyrirlestur, ásamt matsblaði (og próf, ásamt matsblaði) verður að finna í kassa í anddyri heimspekideildar þar sem þú getur nálgast þetta, t.d. um leið og þú skilar inn prófi. Þetta verður komið í kassann föstudaginn 30. maí. Þetta verður í lokuðu umslagi, merkt nemanda, þannig að aðrir nemendur geta ekki skoðað.
 • Ég er að vinna úr einkunnum fyrir próf og þær koma inn á fimmtudagsmorgun.

Laugardagur 24. apríl 2004 - Smá-ábending varðandi ritgerð
Þar sem ég er búin að fara yfir flesta fyrirlestra og byrjuð að fá ritgerðir vil ég sérstaklega taka fram nokkra hluti varðandi ritgerð:

 • Farið nákvæmlega eftir leiðbeiningum um tilvitnanir og notið ÍSLENSKAR gæsalappir.
 • ALLS EKKI endajafna textann - mér finnst óþolandi þegar hann teygist svoleiðis að fjögur eða fimm orð eru í línu. Vinstrijafnið hann, takk.
 • Notið alltaf NÚTÍÐ þegar þið fjallið um bók, t.d. „Ormur fer í sumarbústað“ og „Jón Oddur og Jón Bjarni sofna á öskuhaugunum.“ Þetta er algild regla - en gildir auðvitað ekki um beinar tilvitnanir, þær verða að vera nákvæmlega eins og þær eru í bókinni. Mér finnst einkennilegt að sjá nemanda í háskóla flakka úr nútíð í þátíð í einni setningu t.d. „Ormur fór í sumarbústað með félögum sínum og þar kemst hann að því ...“
 • Að öðru leyti, lesið leiðbeiningarnar um lokaritgerðina.

Laugardagur 24. apríl 2004 - Hanna Rún?
Tveir nemendur fjölluðu um Harry Potter og leyniklefann. Ég hef ekki fengið annan af þessum fyrirlestrum og verð að gefa 0 fyrir þann hluta..

Fimmtudagur 22. apríl 2004 - Kennslukönnun
GLEÐILEGT SUMAR OG ÞAKKA YKKUR VETURINN. Ég var að fá bréf frá HÍ þar sem kennarar eru hvattir til að minna nemendur sína á að taka þátt í kennslukönnun (til að meta námskeið og kennsluna). Hér með minni ég ykkur á þetta: smellið hér (á síðu HÍ) til að sjá hvaða námskeið þið eruð beðin að meta.

Þriðjudagur 20. apríl 2004 - FRAMLENGING
Síðustu dagana hefur streymt inn tölvupóstur með fyrirspurnum um ritgerðarefni. Ég hef verið upptekin við að svara þessum bréfum vegna þess að ég vil leiðbeina ykkur eins vel og ég get. Bréf með fyrirspurnum um framlengdan skilafrest hafa líka flogið inn (uglurnar koma í gegnum strompinn óhindrað, með bréf í gogginum).

Allur þessi tölvupóstur hefur tvenns konar afleiðingar:

1) Ég hef ekki tíma til að gefa einkunnir, þar sem ég er alltaf að skrifa ráðleggingar og svara fyrirspurnum.

2) Ég er alltaf að gefa hinum og þessum smá-frest vegna þess að ég er mannleg og (vonandi) skilningsrík. Ég VEIT að þið þurfið að skila inn fullt af ritgerðum, fara í mörg próf, eigið börn sem eru veik og systkini sem fermast, fáið flensu og iðrakvef, skreppið til útlanda, eruð í vinnu og þurfið að taka aukavaktir - og allt safnast þetta á síðustu daga vetrar og fyrstu daga sumars.

Til lausnar báðum vandamálum hef ég komið með þessa niðurstöðu:

1) Ég fæ 6 daga frest til að skila inn einkunnum fyrir próf og fyrirlestur - til 26. apríl.

2) Þið fáið viku daga frest til að skila inn ritgerðum, eða til mánudagsins 3. maí nk. Þá gengur eitt yfir alla.

Þetta er í raun og veru lokaskilafrestur minn og ykkar. Fair is fair. Þá getum við öll eytt sumardeginum fyrsta og næstu helgi í að klára þetta!

OG HVERNIG Á AÐ SKILA INN? Þið skulið skila inn útprentaðri ritgerð í sérstakan kassa námskeiðsins í anddyri heimspekideildar í Nýja Garði fyrir kl. 19:00 mánudaginn 3. maí - sem er allra besti kosturinn mín vegna.

Ef þú ert ekki á landinu eða kemst alls ekki, geturðu hana sem fylgiskjal til ah@mmedia.is. Athugaðu að þótt þú sendir hana sem fylgiskjal verður hún að vera rétt upsett, með forsíðu og öllu. Ekki reikna með því að vegna þess að þú skrifar nafnið þitt undir tölvupóstinn, viti ég að ritgerðin sé frá þér. Ég prenta bara út nokkrar ritgerðir í einu og ég er ekki spákona: ég veit ekki hver hefur sent mér ritgerðina ef nafnið þitt er ekki á henni. Og ef þú færð ekki „móttökukvittun“ frá mér innan 3ja daga, þá skaltu athuga hvort þú hafir ekki örugglega sent inn ritgerðina.

Sunnudagur 18. apríl 2004 - Tekur lengri tíma en skyldi
Ég hef verið í vandræðum með fyrirlestrana ykkar, því ég hef bara prentað þá út og er núna að gefa einkunnir. Mjög margir fyrirlestrar ERU EKKI MERKTIR með nafni nemanda, og enn fleiri ERU EKKI MERKTIR með umfjöllunarefni. Þið getið ímyndað ykkur vinnuna hjá mér í fyrsta lagi að reyna að finna hvort nemandinn sé að fjalla um, t.d. sögusvið eða þema, og síðan að fletta því upp hvaða nemandi fjallaði um þema í þessari ákveðnu bók. Á því stigi er ég orðin pirruð. Athugið þetta næst þegar þið sendið kennara tölvupóst með verk eftir ykkur á fylgiskjali. Kennarinn á ekki að þurfa að handskrifa nafnið ykkar á verkefnið, hvað þá að reyna að sjá út um hvað verkefnið er. Ef þið getið sparað kennara vinnu, verður hann ánægðari og jákvæðari gagnvart verkefninu ykkar.

Laugardagur 17. apríl 2004 - Fyrirlestrar komnir
Nú held ég að eiginlega allir fyrirlestrarnir séu komnir nema mér tekst ekki að finna eitt stykki, frá Hönnu Rún. Ég er á fullu að yfirfara próf og fyrirlestra og gefa einkunnir. Ég lofaði þeim fyrir 20. apríl og ætla að reyna að standa við það.

Sunnudagur 4. apríl 2004 - Einkunn, hluti 1
Einkunnir fyrir mætingu eru komnar inn á einkunnasíðuna. Ég held að ég sé búin að fá fyrirlestra frá öllum en á eftir að samræma tölur. Þið getið sent sem fylgiskjal með tölvupósti á ah@mmedia.is.

Sunnudagur 3. apríl 2004 - Tíminn á þriðjudag (glærur komnar)
Á þriðjudaginn (6. apríl) verður engin mæting skráð (sumir komnir í páskafrí) en þá verður:

1) Einn tími (17:15 - 18:00). Upprifjun á kröfum sem gerðar eru til lokaritgerðar. Ábendingar o.fl. Eftir tímann gefst kostur á að spyrja mig, spá og spekúlera. Og svo getið þið alltaf sent mér tölvupóst ef ykkur liggur eitthvað á hjarta varðandi ritgerðina. SJÁIÐ GLÆRURNAR HÉR.

2) Upptökupróf (samhliða, í annarri stofu). Þeir sem voru veikir eða löglega afsakaðir geta tekið prófið (verkefni nr. 3, vægi 15%). Því svipar til hins upphaflega prófs en er ekki eins. Tíminn sem gefst er frá 17:15 - 19:00.

Miðvikudagur 31. mars 2004 - Næstsíðasti tíminn á morgun
Nú er komið að hinum viðkvæma Blíðfinni. Fjórir nemendur flytja fyrirlestur og svo ræðum við þetta ágæta verk Þorvaldar Þorsteinssonar. Glærurnar eru komnar inn (smelltu hér). Tíminn á morgun, 1. apríl, er síðasti bóka-umfjöllunartíminn, og síðasti tíminn sem reiknast í mætingu.

Mánudagur 29. mars 2004 - Tíminn á morgun
Á morgun verða fyrirlestrar um Harry okkar Potter. Fjórir nemendur fjalla um Harry Potter og viskusteininn og tveir nemendur um Harry Potter og leyniklefann (aukaverkefni, þar sem öllu öðru hafði verið útdeilt og svo margir hafa hvort sem er lesið bókina). Því verð ég ekki með formlegan fyrirlestur á glærum, heldur notum við tímann ef einhver er eftir, til að spjalla um Harry. Í gamni set ég inn glærur um kvikmyndina (smelltu hér).

Sunnudagur 28. mars 2004 - Mætingareinkunn
Ég er búin að setja allar mætingar inn á Excel-skjal sem reiknar út mætinguna í prósentum.
Til að rifja upp er hér formúlan:

Mæting í prósentum
Einkunn
80-100 %
10
70 - 80 %
9
60 - 70 %
8
50 - 60 %
7
40 - 50 %
6
< 40 %
5

Þessi einkunn reiknast sem 10 % af lokaeinkunn. Ef einhver er rétt fyrir neðan stig (0,1-0,2) gildir framlag í umræður til að „hífa“ persónuna upp. Ég verð með mætingarlistann með í þessum síðustu 3 tímum, þannig að þið getið komið með athugasemdir ef þið viljið.

Miðvikudagur 24. mars 2004 - Glærur fyrir morgundaginn
Jæja, nú er komið að galdrastráknum og minni „sérgrein“ - Harry Potter. Ég var að setja inn glærurnar fyrir morgundaginn, smellið hér til að sjá þær. Ég held að 2 nemendur ætli að fjalla í þessum tíma um Harry Potter og leyniklefann en þær töluðu um það við mig fyrir nokkru. Svo það verður annað hvort á morgun eða á þriðjudaginn.

Í tímanum mun ég dreifa 2 greinum sem birst hafa í tímaritum um Harry Potter. Önnur um sjónarmið femínista og hin er um HP og Bruno Bettelheim (báðar bandarískar). Við getum kíkt á þær og rætt þetta. Þið getið séð þrjár greinar eftir mig hér á kennsluvefnum ef þið hafið áhuga. Ég hef sett blaðsíðutal í tímaritunum inn á síðuna, þannig að þeir sem vilja vitna í greinarnar þurfi ekki að leita langt yfir skammt (þetta er EKKI skyldulesefni, bara fyrir þá sem t.d. ætla að skrifa um HP):

Þriðjudagur 23. mars 2004 - Prófið búið! Fleiri fyrirlestrar
Ég vona að allir séu ánægðir með að prófið sé afstaðið. Þið stóðuð ykkur eins og hetjur! Algjört skriftar-marathon ... nú getið þið lagt fingurna í bleyti (til að ná vöðvabólgunni úr þeim) í staðinn fyrir heilann.

Ég var að setja inn tvo fyrirlestra: Rakel María Magnúsdóttir skrifar um persónusköpun og sjónarhorn í Ljóninu, norninu og skápnum (smelltu hér) og Edda Rós Þorsteinsdóttir skrifar um um fléttu og þema í sömu bók (smelltu hér).

Mánudagur 22. mars 2004 - Fleiri fyrirlestrar á Netið
Nú er kominn fyrirlestur Kristjönu um persónusköpun og sjónarhorn í Gyllta áttavitanum (smelltu hér) og fyrirlestur Sigríðar Aradóttur um sögusvið og stíl í Peði á plánetunni Jörð (sjá hér).

Varðandi prófið: Við höfum fengið stofur 217 og 218 fyrir morgundaginn, til viðbótar við okkar ágætu stofu nr. 225. Hægt er að „velja sér“ stofu með góðu rými og almennilegu borði til að skrifa vel og vandlega litlu ritgerðirnar sínar og ganga svo glaður út í vorið og hlusta á tístið í smáfuglunum (pínu-barnabókastíll). Hasta mañana.

Mánudagur 22. mars 2004 - ENN meira um prófið
Ég fékk aðra fyrirspurn: „Það er ein smá spurning enn. Eigum við að læra söguna, þ.e þegar þú fjallaðir t.d sögulega um ævintýri eða sögu barnabókanna? Af því að þú hefur fjallað um margt annað í tímunum um sögurnar en sögurnar sjálfar. Eigum við að læra það allt eða bara það sem sagt er um sögurnar sjálfar?“

SVAR: Nei. Þið þurfið ekki að læra söguna (ég spyr t.d. ekki hvort það sé rétt að fyrsta barnabókin á Íslandi hafi komið út 1780 og svoleiðis). Ég hef fjallað um söguna og höfundana sem bakgrunn að góðri þekkingu á barnabókum. Það er óþarfi að læra þetta utanað. Skáldsögurnar sjálfar skipta meginmáli.

Sunnudagur 21. mars 2004 - Meira um prófið
Mér var að berast tölvupóstur frá einum nemanda sem spyr:

„Ég var að velta fyrir mér hvort það yrði eitthvað spurt út í fræðimennina sem talað var um í tíma eða höfundana að bókunum. Eða er lögð mest áhersla á bækurnar sjálfar? Eða eðlisfræðina á bak við Þríleikinn. Líka t.d. hver er munurinn á ævintýri og þjóðsögu? Og eigum við að lesa öll ævintýrin eða bara Bettelheim?“

Svar: Nei, ég spyr ekki um fræðimennina eða einstaka hluti um höfundana að bókunum. Ég kem kannski með setningu sem Bettelheim eða annar fræðimaður (sem nefndur er á glærum) hefur kastað fram og spyr hvernig það eigi við ákveðna bók. Mjög auðvelt. Kallar bara á rökhugsun. Þið þurfið ekki að lesa ykkur meira til um fræðimennina eða eðlisfræði, eða muninn á ævintýri og þjóðsögu. Þið þurfið ekki að lesa ævintýrin og þjóðsögurnar aftur. Ágætt að renna yfir Bettelheim og rifja upp bækurnar sjálfar, lesefnið, athyglin beinist að þeim.

Einn nemandi er með áhyggjur vegna þess að hann er veikur og annar er fastur í íþróttaþjálfun fyrir börn á þessum tíma. Þeir hafa spurt hvort um sjúkrapróf verði að ræða.

Svar: Ef einhver er veikur þegar þetta próf fer fram gef ég möguleika þriðjudaginn 6. apríl, þegar síðasti tíminn er. Þá geta nemendur sem voru veikir eða komust ekki af mjög brýnum ástæðum, þreytt svipað próf í næstu stofu við kennslustofuna.

Bestu kveðjur, Anna H.

Sunnudagur 21. mars 2004 - Fleiri fyrirlestrar inn
Þakka Árna ábendingu um að fyrirlesturinn um Dvergastein hafi ekki verið kominn inn - hann er það núna. Svo setti ég inn nýjustu fyrirlestrana sem ég hef fengið senda (með leyfi höfundar), fyrirlestur Sigríðar Önnu um Milljón holur (hér), Sigrúnar Þóru um persónusköpun í Sögunni af bláa hnettinum (hér) og Rannveigar um persónusköpun í Gegnum þyrnigerðið (hér).

Vinsamlegast látið mig vita með tölvupósti ef þið hafið gefið mér leyfi til að setja inn fyrirlestur og hann er ekki kominn á síðuna.

Sunnudagur 21. mars 2004 - Um prófið
Ég hef verið að fá bréf frá nemendum sem spyrja um prófið. Hér eru nokkrar ábendingar:

Kynnið ykkur vel leðbeiningar fyrir hópverkefni (nr. 2 hér til vinstri) og sjáið í hverju eftirfarandi felst: 1) Almenn umfjöllun, 2) Persónusköpun og sjónarhorn, 3) Sögusvið og stíll, og loks 4) Flétta og þema.

Það er öruggt að einhverjar spurningar verði t.d. á þennan veg: „Lýstu persónusköpun og sjónarhorni í Jóni Oddi og Jóni Bjarna“ eða „Hvaða hlutverki gegnir sögusviðið í Ört rennur æskublóð?“

Fyrirlestrar nemenda geta verið hjálplegir í þessu sambandi en hafðu í huga að það er ekki algilt. Sumir nemendur virðast ekki hafa skoðað ábendingar varðandi sitt umfjöllunarefni (t.d. persónusköpun, sögusvið og stíl, þema og fléttu, o.s.frv.) heldur tala um einhvern allt annan hlut í bókinni (eða jafnvel í öðrum bókum). Það var skýrt tekið fram, í upphafsstöfum (hér) að nemendur ættu að fara eftir ábendingunum. Margir nemendur hafa þó haft þetta að leiðarljósi og gefið glögga innsýn í bókmenntaverkið sem þeir fjölluðu um.

Annars gildir það sem ég segi á síðunni um prófið (verkefni 3), nema hvað ég ætla að sleppa krossaspurningum. Þið eruð of þroskuð til þess að ég þurfi að tékka hvort þið hafið lesið eða skilið þetta og hitt. Sýnið frekar hvað í ykkur býr með stuttum ritgerðum.

Þið þurfið ekki að lesa Harry Potter og Ég heiti Blíðfinnur fyrir þetta próf - ekki verður spurt úr þeim bókum.

Það verða 10 spurningar, þ.e. 5 pör af spurningum og í hverju pari veljið þið aðra hvora (þ.e. svarið 5 spurningum með smá-ritgerð).

Ég er enn að athuga með stofu en það verður þá pottþétt stofa á sama gangi, bara með borðum svo betur fari um ykkur.

Miðvikudagur 17. mars 2004 - Meiri Pullman
Á morgun, fimmtudag fáum við að SPJALLA um Pullman. Vonandi hafið þið eitthvað til málanna að leggja (ég gæti talað um hann í nokkra daga, en þið þaggið bara niður í mér). Glærurnar eru komnar inn (smelltu hér til að sjá kennsluáætlunina).

Einnig eru komnir inn nokkrir fyrirlestrar nemenda í viðbót. Þið þurfið ekki að skila inn fyrirlestri fyrr en EFTIR að hafa flutt hann - en lokaskiladagur (ég er eins og rispuð grammófónsplata) er 6. apríl ...

Miðvikudagur 17. mars 2004 - Áhugaverð bók
Ég var að vafra í Gegni, hvað væri til um Philip Pullman. Þá rakst ég á áhugaverða bók um kappann sem er til á bókasafni KHÍ. Talking books: children's authors talk about the craft, creativity, and process of writing. Ritstj. James Carter. London; New York: Routledge, 1999
(266 bls). ISBN 0415194164. Í bókinni tala þekktir höfundar um verk sín, m.a. Brian Moses, Benjamin Zephaniah, Ian Beck, Neil Ardley, Terry Deary, Helen Cresswell, Gillian Cross, Berlie Doherty, Alan Durant, Philip Pullman, Celia Rees, Norman Silver og met-útlána-hafinn Jacqueline Wilson. Merking í hillu: 809.89282.

Og ég var að uppgötva að einhver hefur skrifað lokaritgerð í almennri bókmenntafræði um Pullman! Til hamingju, Helgi Sigurbjörnsson.

Sunnudagur 14. mars 2004 - Bráðum koma blessuð jólin
Nú ættu allir fyrirlestrar nemenda sem hafa á annað borð gefið mér leyfi, að vera komnir inn. Gluggið í þá við tækifæri. Á þriðjudaginn (16. mars) tölum við um aðra heima og vísindaskáldsögur. Ég hvet alla til að mæta - ykkur mun þykja þetta fróðlegt efni og nú er ég í essinu mínu vegna þess að þetta er uppáhaldsefnið mitt; ég hef hlakkað til þess alla önnina að byrja á Pullman, vini mínum!

Glærurnar eru komnar inn (smelltu hér til að skoða). Þetta eru 60 stykki, nóg fyrir ykkur að prenta út. Ekki láta það hræða ykkur hvað viðfangsefnið er flókið (eðlisfræði og svoleiðis). Þið uppgötvið nýja heima, ég lofa. Honest. Sjáumst á þriðjudaginn kl. 17:15.

Fimmtudagur 10. mars 2004 - Nú er það ljónið ...
Í dag tölum við um Ljónið, nornina og skápinn eftir C.S. Lewis. Glærurnar eru komnar inn, smelltu á kennsluáætlun til að sækja þær.

Miðvikudagur 10. mars 2004 - Þórbergsþing 12. mars
Þetta kemur barnabókmenntum e.t.v. ekkert við en ég var að fá þessa tilkynningu og datt í hug að miðla til ykkar: Íslenska esperantósambandið og Þórbergssetur halda málþing um Þórberg Þórðarson í Norræna húsinu 12. mars næstkomandi. Málþingið stendur frá kl 16:00 - 19:00. M.a. verður lesið upp úr þýðingum á verkum Þórbergs Þórðarsonar sem hann skrifaði á esperantó og samtalsbók Matthíasar Johannessen, Í kompaníi við allífið. Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur flytur erindi um meistarann og Jón Hjartarson stígur á svið og flytur efni úr Sálminum um blómið. Vonandi sjá sem flestir velunnarar Þórbergs sér fært að koma við í Norræna húsinu á afmælisdegi meistarans og njóta dagskrárinnar. María Gísladóttir starfsmaður Þórbergsseturs vinnur nú við söfnun heimilda um Þórberg og leitar eftir munum og myndum. Þeir sem geta lagt henni lið við þessa vinnu mega gjarnan hafa samband, en netfang hennar er thorbergur@fruma.is. http://www.thorbergur.is

Þriðjud. 9. mars 2004 - Uppfærðir fyrirlestrar
Skemmtilegur tími í dag, allir farnir að taka meiri þátt í umræðum og viðra sínar skoðanir. Ég hlakka til að takast á við „high fantasy“ með ykkur. Ég var að uppfæra eldri fyrirlestra og skutla glærunum fyrir Dvergastein í loftið. Nú eiga allir fyrirlestrarnir mínir að vera þarna. ENDILEGA DRÍFIÐ Í AÐ AFHENDA MÉR EÐA SENDA INN FYRIRLESTRA, þið sem eruð ekki búin að skila inn. Lokaskiladagur fyrir fyrirlestrana ykkar er síðasti kennsludagur, 6. apríl. Svo notum við tímann frá 6.-26. apríl, þið til að klára lokaritgerðina, og ég til að gefa einkunnir fyrir mætingu (námsmat 1), fyrirlestra (námsmat 2), og prófið (námsmat 3).

Miðvikud. 3. mars 2004 - Fimmtudagstíminn
Vinsaml. ath. að tíminn á morgun er styttri en venjulega (kl. 17:15 - 18:15). Missið samt ekki af tímanum sem fjallar um ljóð fyrir börn - GRANNMETI OG ÁTVEXTIR er frábær bók. Smelltu á Kennsluáætlun til að prenta út fyrirlesturinn.

Mánud. 1. mars 2004 - Þessi vika ...
ÞRIÐJUDAGUR: Á morgun, þriðjudaginn 2. mars, fjöllum við um Söguna af bláa hnettinum - mjög áhugaverða bók. Ég náði ekki að skutla inn glærum en verð með dreifiblöð í tímanum og svo spjöllum við um bókina - ég veit að þið hafið margt að segja (og svo verða auðvitað fyrirlestrar þriggja nemenda).

Mánud. 1. mars 2004 - NÝTT ÚTLIT
Ég hef eytt nokkrum dögum í að gefa síðunni glænýtt og einfaldara útlit og vona að ykkur finnist það betra. Nú eru komin leyfi frá nokkrum nemendum til að birta fyrirlestra þeirra og ég hef sett inn alla fyrirlestra sem fengin eru skrifleg leyfi fyrir. Hina bíð ég með. Smelltu á „Kennsluáætlun“ til að skoða yfirlit yfir fyrirlestrana.

Miðvikud. 25. feb. 2004 - Næsti tími
Glærurnar fyrir morgundaginn eru komnar inn. Smelltu hér. EKKERT LESTRAREFNI fyrir þann dag. Horfið bara á sjónvarp og lesið Moggann og hafið það gott (eða lærið fyrir aðra kennara). Verst að „Gilmore Girls“ sé ekki á hverjum degi. Ho-ho. Þetta verður góður tími á fimmtudaginn. LÆRIÐ AÐ SKOÐA MYNDABÆKUR! Ótrúlega margt býr á bak við þessar „einföldu“ myndir. Þetta er eini tíminn um myndabækur á þessari önn (fyrir utan tímann á þriðjudaginn um Söguna af bláa hnettinum), þannig að ég hvet ykkur sem hafið áhuga á bókum fyrir yngri börn að mæta. Ég mun dreifa ljósriti af allri bókinni WHERE THE WILD THINGS ARE eftir Maurice Sendak og við greinum hana í tætlur til að „skilja“ myndabækur.

Þriðjud. 24. feb. 2004 - Ákvörðun varðandi fyrirlestra ... :=)
Í tímanum í kvöld var tekin sú ákvörðun að nemendur réðu hver um sig hvort fyrirlestrar þeirra færu á Netið eða ekki. Ákvörðun þeirra hefur ENGIN áhrif á einkunnagjöf. VINSAML. ATH:

 • Þeir sem hafa þegar sent fyrirlestra verða að senda mér tölvupóst og láta mig vita hvort fyrirlesturinn megi fara á Netið.
 • Þeir sem eiga eftir að senda mér fyrirlestra þyrftu að taka fram hvort þeir vilji birtingu á Netinu eða ekki. Verið bara hreinskilin og ekki hika ef þið kjósið að halda þessu sem einkaefni.
 • Þeir sem eru hræddir um að aðrir nemendur „steli“ þeirra efni ættu að hafa MINNI áhyggjur ef fyrirlesturinn er kominn á Netið. Þá er einkaréttur þeirra kominn á prent (í „cyberspace“).
 • Ég endurtek (eins og góðir barnabókahöfundar gera 10 sinnum) að ef ég fæ ekki „leyfi“ með tölvupósti set ég ekki fyrirlestur á Netið.

Þriðjud. 24. feb. 2004 - Möppurnar eru komnar í hilluna! Jibbí! (Nóg af upphrópunarmerkjum í bili)
Jæja, nú er ég búin að ljósrita allar greinarnar og setja í stafrófsröð í 4 myndarlegar, svartar möppur sem eru í neðstu hillunni í hillunni fyrir bókmenntafræðinema á 4. hæð í Þjóðarbókhlöðu. Ef þið smellið hér sjáið þið hvaða greinar eru í möppunni (þær eru stjörnumerktar) og stutt yfirlit yfir innihald þeirra. Ég bæti svo smám saman við fleiri greinum.

Sunnud. 22. feb. 2004 - FYRIRLESTRAR NEMENDA: Á NETIÐ EÐA EKKI?
Vá, við lendum í skoðanaskiptum eins og Hugi.is eða Kistan.is. Gaman, gaman ... Háskólanemendur eru einmitt að læra að virkja sína rödd í samfélaginu. Ábendingasíðan („feedback“) virkaði ekki en nú er búið að laga það. HÚN VIRKAR. Svo hér koma skoðanaskipti (byrja neðst, á bréfi A).

24. febrúar, bréf frá D: „Það sem ég hef verið að hugsa um í þessu sambandi er hvað við höfum upp úr því að lesa fyrirlestrana hjá hinum, þ.e.a.s. hversu góðir eru þeir til að vera það marktækir að hægt sé að lesa þá sem prófundirbúning.“ Ágæt spurning - það er ykkar að dæma hvað er „gott“ og hvað er ekki „gott“ - alveg eins og þegar þið lesið greinar eftir misjafnlega góða fræðimenn.

24. febrúar, bréf frá C: „Ég var mjög ánægð með þá tilhögun sem þú kynntir um daginn að fyrirlestrar nemenda yrðu á glærum fyrir okkur til að hafa okkur til gagns. Ég vona að sem flestir séu til í að setja sinn fyrirlestur á netið. Það getur að mínu mati eingöngu verið jákvætt. Með Góukveðjum...

23. febrúar, bréf frá B: „Ég er ósammála þessari nafnlausu ábendingu um að ósanngjarnt væri að fyrirlestrar nemenda væru settir inn á síðuna. Það er í lagi að breyta hlutum eftirá ef þeir eru til hins góða. Í fyrsta lagi er ekki eins og fólk hafi ekki getað hlustað á ræðuna og heyrt innihaldið. Í öðru lagi þá hjálpar þetta til við að muna hvað viðkomandi sagði. Margir skemmtilegir og áhugaverðir punktar koma fram sem leiðinlegt er að missa af ef svo vill til að nemandi komist ekki í tíma og missi af sjálfum fyrirlestrinum. Einnig er þetta gott tæki, eins og kemur fram hjá kennara, að rifja upp skáldsögunar sem fjallað er um. Ég styð að fyrirlestrarnir séu settir inn á netið."

22. febrúar, bréf frá A: Mig langar að koma á framfæri óánægju minni með þá ákvörðun þína að setja fyrirlestra nemenda á Netið. Í fyrsta lagi finnst mér mjög hæpið að reglum um verkefni sé breytt eftir á, þ.e. fyrst stóðu nemendur í þeirri meiningu að ekki ætti að skila fyrirlestrunum heldur einungis flytja þá, síðan ákvaðst þú að láta nemendur skila þeim og nú að setja þá á Netið. Þetta hefðir þú þurft að vera búin að ákveða og útskýra fyrir nemendum strax í upphafi námskeiðsins. Í öðru lagi finnst mér mjög ósanngjarnt að þeir sem eiga eftir að halda fyrirlestra hafi aðgang að fyrirlestrum annarra nemenda og geti þannig nýtt sér þá. Ég vildi bara koma þessari óánægju á framfæri við þig því það eru fleiri en ég á þessari skoðun.

Æ, æ. Nú er úr vöndu að ráða. Ég taldi það vera vilja nemenda! Bréfritari segir að fleiri deili þessari skoðun, og ekki veit ég hvort það eru 1-2 vinir eða stærri hópur. Til að hafa alla ánægða tek ég alla fyrirlestrana út til bráðabirgða. Ég er að reyna að vera réttlát og vinsamlegast LÁTIÐ MIG VITA ef ykkur finnst ég vera að brjóta gegn mannréttindum ykkar. Ef ykkur finnst óréttlátt að ég breyti einhverju sem ég sagði í fyrstu vil ég bara segja að námskeiðið þróast eftir þörfum og óskum meirihluta nemenda. Ég vil ekki segja: „Þetta VERÐUR að vera svona og ekkert fær því breytt.“ Háskólasamfélag er gagnvirkt að mínu mati. Ykkar raddir skipta máli.

Athugið að fyrirlestrarnir geta hjálpað til að svara prófspurningum og ætlunin var að setja þá þarna til að þið getið rifjað upp efnið fyrir prófið. Nemandi hjálpar nemanda, eða þannig, og ef einn nemandi getur „nýtt“ sér eitthvað sem annar hefur gert, þá er það til góðs, á meðan hún (eða hann) virðir einkarétt nemandans sem upphaflega skrifaði ...

Miðvikud. 18. feb. 2004 - Samræming
Komið þið sæl. Ég er að samræma síður sem áður hétu „kennsluáætlun“ og „fyrirlestrar“ í eina (eða reyndar tvær síður). Smellið hér til að sjá fyrri síðuna og sækja glærurnar fyrir morgundaginn (neðst á síðunni). Á morgun tölum við um Jóru og mig (Jóra og ég?)

Mánud. 16. feb. 2004 - Milljón holur
Þá er fyrirlestrarefni morgundagsins um MILLJÓN HOLUR komið inn í glæruformi, svo þið getið prentað út (smellið hér). Skv. loforði mínu er ég búin að vinna að 3 möppum með erlendum greinum. Á morgun tala ég við Þjóðarbókhlöðu um að geyma þær á aðgengilegum stað fyrir ykkur. Læt vita í tímanum hvernig þetta fer.

Sendið mér endilega fyrirlestra ykkar á þetta tölvupóstfang sem fyrst (þ.e.a.s. eftir að þið hafið flutt hann ...). Ég gef einkunn á matsblaði og skila til ykkar fljótlega.

Sunnud. 15. feb. 2004 - Fyrirlestrar ykkar á Netið
Við ræddum í síðasta tíma um að fyrirlestrar ykkar fari á Netið. Ég er búin að setja 2-3 inn. Farið á síðuna sem kallast „Fyrirlestar“ og smellið á fyrirlestra nemenda. Þá koma þeir upp. Þetta ætti að vera góð hjálp fyrir þá sem hafa misst af tímanum og verður vonandi ekki til þess að þið sleppið einfaldlega tímum. Svo eru glærurnar frá tímanum á fimmtudaginn var, um Gegnum þyrnigerðið, komnar upp, sjá sömu síðu.

Mánud. 9. feb. 2004, seint - Glærur komnar og greinar á leiðinni
Helgin fór að miklu leyti í að ljósrita greinar og þær verða FLJÓTLEGA komnar í LBS - læt ykkur vita. Glærurnar fyrir morgundaginn eru komnar upp (smelltu hér). Við fáum fyrirlestra frá nemendum fyrst, skv. ábendingum (þakka ykkur ábendingarnar). Svo reynum við að spjalla um Peðið og notum þessar glærur (ekki margar, aðallega tilvitnanir) til hliðsjónar.

Miðvikud. 4. feb. 2004 eftir miðnætti - Glærur inn
Ég var að setja glærurnar inn fyrir morgundaginn (smelltu hér). Almennt spjall um þroskasögur kvenna og fleira áhugavert. Þið þurfið ekki að vera búin með Peð á plánetunni jörð. Bara mæta. Afsakið að ég er ekki búin að setja erlendu greinarnar í Þjóðarbókhlöðuna. Næsta helgi fer í það (á meðan þið lesið Peðið).

Mánud. 2. feb. 2004 kl. 23:30 - Glærur inn
Sumir eru alltaf á síðustu stundu. Ég var að setja glærurnar inn fyrir morgundaginn (smelltu hér). Þetta er ekki mikið vegna þess að: a) Fjórar manneskjur verða með kynningu, og b) Það væri gaman að hafa líflegar umræður. Til þess að skapa „neista“ í umræðurnar hef ég sett nokkrar áhugaverðar tilvitnanir á glærurnar.

Sunnud. 1. feb. 2004 kl. 16:20 - Lokaritgerð
Þá er bara kominn febrúar. Um helgina hef ég (fitnað um eitt kíló vegna skyndilegrar sælgætisfíknar og) verið að vinna í síðunum sem leiðbeina um lokaritgerðina, en þær eru fjórar (1, 2, 3, 4). Þessar leiðbeiningar koma sér e.t.v. líka vel fyrir þau ykkar sem eru að bjástra við B.A.-ritgerð.

Fimmtud. 29. jan. 2004 kl. 22:30 - Do Not Disturb
Ég hef fengið kvörtun á nafnlausu „feedback“-síðunni um að nemendur heyri ekki í mér fyrir öðrum nemendum sem verða að pískra ævisögu sína í eyru félaga síns á meðan fyrirlesturinn er. Þið sem eruð að spjalla: farið bara á kaffihús á eftir, eða bloggið, eða eitthvað . . .

Miðvikud. 28. jan. 2004 kl. 21:10 - Glærurnar komnar
Glærurnar fyrir morgundaginn eru komnar í loftið (smelltu hér). Þið hafið viku til að lesa Gauragang (til næsta þriðjudags), þar sem sagan er í lengra lagi. Vonandi eruð þið langt komin með hana. Í tímanum á morgun verður fjallað um þroskasögur („Bildungsroman“ eða „Coming-of-age"-sögur) almennt. Þær eiga sér lengsta sögu sem KARLKYNS þroskasögur, því byrjum við á Gauragangi og fjöllum svo um KVENKYNS þroskasögu, Peð á plánetunni jörð, þar á eftir (5. og 10. febrúar).

Sunnud. 25. jan. 2004 kl. 22:50 - Bókakaffi 5. febrúar
Ég var að setja inn auglýsingu á síðu SÍUNG um Bókakaffi fimmtudaginn 5. febrúar 2004. Þá verða pallborðsumræður á Súfistanum um íslenskar barnabækur - Guðrún Helgadóttir stjórnar. Sjáðu allt um það hér á síðu SÍUNG. Þessi Bókakaffi eru tvisvar á ári á Súfistanum og það er alltaf skemmtilegt að fylgjast með.

Sunnud. 25. jan. 2004 kl. 22:40 - Glærur í loftið
Þá eru glærurnar komnar inn fyrir tímann á þriðjudag, 27. jan. Smelltu hér til að finna þær. Mér til mikillar ánægju eru tveir nemendur búnir að skrá sig á bók Guðlaugar Richter, Jóra og ég. Nú er allt að verða fullt í hópverkefnin, svo ef þú átt enn eftir að velja, skoðaðu listann hér til að sjá hvað er laust.

Laugard. 24. jan. 2004 kl. 21:10 - Um hópa og Lyklabörn
Það urðu smá-breytingar á umfjöllun um Lyklabarn. Guðbjörg tekur „almenna umfjöllun“ í stað persónusköpunar. Ég mun sjálf taka að mér þá þætti sem enginn skrifaði sig fyrir (persónusköpun og sögusvið) - enda er viðfangsefnið ekki breitt (ath. einfalt i) í þetta skipti. Athugið að þótt ykkur finnist Lyklabarn e.t.v. ekki mjög áhugaverð saga, þá er hún táknræn fyrir „vandamálasögur“ og mikilvæg sem slík. Ég mun fjalla um þennan söguflokk („genre“) í tímanum á þriðjudag og það er ágætt fyrir ykkur að vita hvað einkennir sögur í þessum flokki - hvað sem ykkur finnst um Lyklabarn. Glærurnar fyrir tímann koma inn á morgun, sunnudag.

Fimmtud. 22. jan. 2004 kl. 00:40 - Hópar ...
Þá er Guðrún Helgadóttir afgreidd í bili. Nýjustu viðbætur í hópa: Karen tekur „fléttu/þema“ í Gegnum þyrnigerðið (hún sendi mér tölvupóst í gær). Ég verð að biðja Hönnu að finna eitthvað annað, þar sem Karen var komin á þennan stað. Guðmundur Ingvar Jónsson tekur „almenna umfjöllun" um Dvergastein. Megi bein þín gróa vel, Guðmundur, fyrir þann tíma. KÆRAR ÞAKKIR fyrir góð ummæli í „feedback“ - hver sem stendur á bak við þau. Þetta er alger vítamínsprauta. Úha ...

Fimmtud. 22. jan. 2004 kl. 01:40 - Glærur fyrir morgundaginn
Á morgun (í dag) fjöllum við um Jón Odd og Jón Bjarna eftir einn helsta barnabókahöfund þjóðarinnar, Guðrúnu Helgadóttur. Ég hlakka til að heyra Þórhildi, Björgu, Kristínu og Guðrúnu Erlu fjalla um ýmsa þætti varðandi bókina. Þannig að ég fjalla aðallega um raunsæisstefnuna og Guðrúnu, og leyfi stöllunum fjórum að kryfja bókina til mergjar. Smelltu hér til að sjá glærurnar.

Miðvikud. 21. jan. 2004 kl. 22:40 - „Feedback“-síða
Snillingurinn sonur minn er búinn að setja upp síðu þannig að þið getið sent mér nafnlaus hótunarbréf. Nei, þið þurfið ekki að vera grimm. Mig langar bara að fá álit ykkar á námsefni, kennsluaðferðum o.þ.h. Það er ENGIN LEIÐ fyrir mig að rekja hvaðan álitið kemur, þannig að þú skalt ekki vera hrædd(ur) um að falla í vor vegna ummæla þinna ... smelltu hér til að sjá síðuna eða veldu „Feedback“ neðarlega á valstikunni vinstra megin.

Þriðjud. 20. jan. 2004 kl. 19:20 - Hópaskráningar
Þakkir fyrir skemmtilegan tíma í dag (alla vega fyrir mig). Ég dreif mig í að færa inn Marvin Lee (á Bláa hnöttinn) og Höllu Sif (á Peðið), en þau skráðu sig í tímanum. Þá eiga aðrir betra með að sjá hvað er laust (sjá hér). Nú get ég fengið mér að borða í rólegheitunum.

Mánud. 19. jan. 2004 kl. 23:55 - Glærur í loftið
Power Point glærurnar eru komnar inn fyrir tímann á morgun. Vonandi náið þið að prenta þetta út og taka með (sjáið hér). Hannes Óli verður með „almenna umsögn“ og Sunna Njálsdóttir með „persónur og sjónarhorn“. Þau fá mörg aukaprik fyrir að hefja gamanið ... svo mun ég fjalla um „sögusvið og stíl“, „þema og fléttu." Það gefur ykkur kannski einhverja hugmynd um hvernig þetta er.

Sunnud. 18. jan. 2004 kl. 23:50 - Hópverkefni aftur ...
Þá eru síðurnar um hvern lið hópverkefna komnar inn (en ekki fullbúnar enn). Ég tók út liðinn sem ég kallaði „Leiðbeiningar um lestur“ og skipti þessu efni niður á hina 4 nýju liði (og bætti ýmsu við). Sjá valstikuna hér til hliðar („2. Hópverkefni“). Þakka ykkur sem hafið sent tölvupóst og skráð ykkur í hópa. Ath. hvort þið eruð ekki á réttum stað hérna. Ég var að bæta þeim inn sem sendu mér tölvupóst í dag.

Laugard. 17. jan. 2004 kl. 15:30 - Ört rennur æskublóð
Sumum ykkar hefur ekki tekist að komast yfir bókina - hún er ekki til á öllum bókasöfnum. Einn nemenda benti á að hún er til í mörgum skólabókasöfnum. Nýtið ykkur grunnskólanema í fjölskyldunni til að fá hana að láni í skólabókasafninu. Enda þótt ykkur takist ekki að lesa bókina, komið í tímann. Þá getið þið a.m.k. kynnt ykkur efni hennar og eruð betur stæð þegar kemur að prófi.

Fimmtud. 15. jan. 2004 kl. 21:30 - Hópverkefni
Góður tími í dag- fyrirgefið hraðann, þetta var svo mikið að fara yfir á litlum tíma. Þakka ykkur fyir að loka ekki augunum og hrjóta zzzzzz .... Og mætingin er góð. Nú er ég að skrá inn hópverkefnin og setja einnig tölvupóstfang, svo þið getið haft samband við hina í hópnum ef þið viljið. Annars ráðið þið hversu sjálfstætt þið vinnið verkið.

Ástæður fyrir því að ég skipti hópverkefni niður í einstaklingsverkefni eru þessar:

 • Í hópverkefni er oft einn sem „ræður öllu“. Þeir hlédrægu fá ekki að njóta sín. E.t.v. hafa þeir mjög góðar hugmyndir sem ekki komast á framfæri, og fá svo lægri einkunn (fyrir allan hópinn) en þeir ættu skilið fyrir hugmyndauðgi sína.
 • Nútímaþjóðfélag, ys og þys, býður ekki upp á margar stundir sem hópur getur setið saman og spjallað um daginn og veginn. Einstaklingur getur fundið sér gloppu hér og gloppu þar.
 • Við eigum öll uppáhalds-verkefni, uppáhalds-bókategundir. Sum hafa gaman af persónusköpun, önnur af sögusviði. Ég vil leyfa ykkur að njóta ykkar með því að velja
  • a) bók - og
  • b) viðfangsefni.

Samt ætti ekki að saka að þið vinnið eitthvað saman, t.d. með því að hafa samband með tölvupósti. Því set ég tölvupóst við hvert nafn (þ.e. þau nöfn sem ég hef tölvupóst fyrir). EN ÉG FINN EKKI BLAÐIÐ sem ég lét ganga í fyrsta tíma um tölvupóstföng. Ég er að leita ... annars verð ég að láta það ganga á ný.

Miðvikud. 14. jan. 2004 kl. 22:10 - GLÆRUR f. þriðja tíma
Nú eru glærurnar fyrir fyrirlesturinn á morgun komnar inn (smellið hér). Prentið út og takið með. Vegna nemenda sem eiga erfitt með að mæta reyni ég að hafa sem mestar upplýsingar á glærunum. En til að þær festist í minninu og til að fá aukaupplýsingar, endilega reynið að mæta (mér finnst gaman að sjá ykkur). Þriðji tíminn er mikilvægur tími fyrir þá sem vilja vita úr hvaða hráefni saga er gerð. 1 dl af persónum, 300 g af sögusviði og 1 kg af fléttu, 1 tsk. af umhverfislýsingum, slatti af spennu ...

Sérstaklega mikilvægt fyrir hópverkefnin - og lokaritgerðina. Líka fyrir þá sem dreymir um að verða rithöfundar. Þetta er kjarninn úr námsefni mínu fyrir „Að skrifa barnabók“. Hasta mañana!

Þriðjud. 13. jan. 2004 kl. 19:30 - Bókað í HÓPVERKEFNI
Takk fyrir tímann í dag. Ég er að henda strax inn þeim sem skráðu sig í hópverkefni í tímanum. Vinsaml. athugið, þið sem skráðuð ykkur í tímanum:

 • KRISTJÁN vildi persónusköpun í Silfurkrossinum, en það var komið inn. Ég setti þig á „Almenna umsögn" í staðinn.
 • HEIÐUR MARÍA vildi persónusköpun í Gyllta áttavitanum en það var farið fyrirfram, svo ég setti þig á þema í staðinn.

Hinir (Gerður og Kristján) komust á réttan stað eftir ósk sinni. EInnig þeir sem hafa sent mér tölvupóst.

Mánud. 12. jan. 2004 kl. 21:45 - GLÆRURNAR INN.
Power Point glærurnar fyrir morgundaginn eru komnar inn. Ég sagði kl. 21 en þá vissi ég ekki að Frasier yrði í kvöld :). Þetta eru svolítið margar glærur, eða 54 stykki. Farðu inn á fyrirlestrasíðuna til að vista þær. Ef þú prentar 3 stk. á síðu, þarftu 18 bls. Ef þú prentar 6 á síðu, þarftu 9 bls. (af hverju fór ég ekki í stærðfræði?). Sjáumst á morgun kl. 17:15 í stofu 225 í aðalbyggingu.

Sunnud. 11. jan. 2004 kl. 15:10 - LESA FYRIR ÞRIÐJUDAG
Lesefni fyrir tímann á þriðjudag er komið á hreint. Þetta er sk..létt.

Glærurnar verða svo komnar inn hér á morgun, mánudag (eða mjög seint í kvöld).

Sunnud. 11. jan. 2004 - greinasafn, erlent
Eins og ég sagði í fyrsta tímanum á ég hrúgur af ljósrituðum greinum um barnabókmenntir sem ég sankaði að mér um allt Bretland í 3ja ára doktorsnámi. Ég hef nú sett listann yfir greinarnar hérna. Ég þarf bara að raða þeim í möppur og koma þeim í Þjóðarbókhlöðuna.

Laugard. 10. jan. 2004 - hópverkefni
Í fyrsta tímanum skrifuðu nemendur sig í hópverkefni. Það náðu ekki allir að skrá sig og eins voru ekki allir mættir. Ég er búin að setja upp listann á kennsluáætlunina. Smelltu hér til að sjá hana. Þú getur sent mér tölvupóst ef þú vilt skrá þig á vissa bók með ákveðið hlutverk, en annars verður listinn líka látinn ganga á þriðjudaginn (13. janúar).

Laugard. 10. jan. 2004 - mætingareinkunn
Ánægjulegt var að sjá hvað margir mættu í fyrsta tímann. Ég ætla að koma þessu á hreint með mætinguna. Það stendur að mæting og þátttaka í umræðum gildi 10%. Það er EKKI mætingarskylda við H.Í. En yfir 80% mæting gefur þér 10 fyrir þennan lið. Og ef þú kemst ekki svo oft, komdu með góðar athugasemdir og taktu þátt í umræðum þegar þú á annað borð kemst - þá færðu fulla einkunn fyrir þennan lið.

Föstud. 9. jan. 2004 - þið sem ekki komust
Þið sem komust ekki í fyrsta tímann, athugið að þið getið skoðað glærurnar fyrir tímann hér. Til að vista glærur eða prenta út, hægrismellið á slóðina og veljið „Save target as ...“. Ég mun reyna að vera komin með glærur á Netið daginn fyrir ákveðinn kennsludag. Þið getið prentað þær út (t.d. í „handouts“-formi og valið 3 á síðu, þá er pláss fyrir athugasemdir).

Bon voyage ...
 
Vefmeistari: Anna Heiða Pálsdóttir