-Forsíða
-Æviágrip Guðrúnar
- - Menntun/störf
- - Kanada 1919-1930
- - Ísland 1930-1931
- - Kanada 1931-1934
- - Ísland 1934-1945
- - Árin 1945-1960
- - Eftir 1960
-Æviágrip Páls
- - Í vinnslu
-Ættartala Guðrúnar
- - Stefán, faðir G.St.
- - Friðný, móðir G.St
- - Systkini Guðrúnar
- - Ættingjar í Kanada
-Ættartala Páls
- - Ættartala Páls S.
-Afkomendur
- - Listi
- - Um börnin átta
- - Hópmyndir, börnin.
-Minningarbrot
- - Formáli minning.
- - Hugleiðingar barna
- - Guðrún Elísabet
-Ljósmyndir
- - Nr, 1 (1919-1934)
- - Nr.2 (1935-1945)
- - Nr 3 (börn ung I)
- - Nr 4 (börn ung II)
- - Nr 5 (1959-1979)
- - Nr.6 (í vinnslu))
- - Nr.7 (GSt. sextug))
- - Nr.8 (1979-1999)
- - Nr. 9 (2000-2001)
- - Nr.10 (2002 a)
- - Nr.11 (2002 b))
- - Nr.12 (2003 a)
- - Nr.13 (2003 b)
- - Nr.14 (í vinnslu)
-Tenglar
-English

 

Guðrún Stephensen - Æviágrip 3. hluti: Kanada 1931-1934

Á síðustu árum Guðrúnar sagði hún okkur börnunum ýmsar sögur frá æsku sinni, uppvexti og lífi. Við höfuðm safnað þessum sögubrotum saman og Stefán, elsti bróðirinn, gerði úr þeim snjalla heildarmynd. Stefán setur sig í spor sögumanns sem situr hjá mömmu og spjallar við hana um farinn veg.

Þessum ævibrotum hef ég skipt niður í fjóra hluta. Hér er þriðji hluti, um endurkomu mömmu til Kanada, frá 1931 - 1934.

Foreldrar Guðrúnar urðu fyrir vonbrigðum með gamla fósturlandið og fóru til baka til Kanada 1931 eftir ársdvöl á Íslandi.

Því fór svo að haustið 1931 vorum við komin aftur til Kanada. Þar sem húsið og húsbúnaður hafði verið selt fyrir Íslandsferðina, áttum við í ekkert hús að venda. Því varð að taka húsnæði á leigu. Fyrst leigðum við í Home Street hjá Kris Thorsteinssyni og frú sem bjuggu þar ásamt þremur sonum sínum. Hún vann hjá útvarpsstöð í Winnipeg, og var því nokkuð nútímaleg kona á þess tíma mælikvarða. Þau áttu píanó og leyfðu mér oft að spila á það.

Seinna fluttum við í leiguhúsnæði hjá Sigga Þorsteinssyni og konu hans, Dóru, og þremur sonum. Á þessum árum gekk ég í „sixth grade, seventh grade“, „eighth grade“ og „ninth grade” . Mér gekk vel í skóla. Þau sem voru í 5 efstu sætunum í bekknum fengu að sitja fremst. Flestir krakkarnir voru af íslenskum ættum. Guðrún Biering var alltaf efst í bekknum og við Fred Steffensson skiptumst ætíð á að vera í 4. og 5. sæti.

Síðar fluttum við á neðri hæðina hjá Sigga Vilhjálmssyni. Siggi var einhleypur og hafði vinnu en hann skrifaði meðal annars greinar í Heimskringlu og Lögberg. Hann var róttækur og skrifaði gjarnan um ýmis þjóðþrifamál. Siggi átti gamla ritvél sem hann eyddi mestöllum tíma sínum við. Ég lærði á vélina og vélritaði til dæmis fyrir Sigga eina grein sem hann sendi í blað.

Siggi sparaði hvern aur og var lítt hrifinn af því að eyða peningum í mat. Einn daginn kom ég að honum þar sem hann var með fulla pönnu af mat sem hann var að steikja. Ég spurði: „Ertu að steikja kartöflur?“ Hann svaraði: „Þetta er nú laukur, vinan. Laukur er hollur, bragðgóður og ódýr matur. Hann er fínn fyrir heilsuna og kemur í veg fyrir að tennurnar verði mjúkar.“ Aldrei hafði ég vitað til þess að ein máltíð gæti samanstaðið af lauk og engu öðru!

Kreppuárin voru ýmsum erfið. Ekki var mikla vinnu að fá og þurfti pabbi stundum að sækja vinnu langan veg. Foreldrar mínir voru því aftur farnir að hugsa um að flytja til Íslands og um nokkurn tíma hafði verið ákveðið að það yrði haustið ’34. Ég hlakkaði mikið til að byrja í „Dan Mac“ skólanum, og varð fyrir vonbrigðum þegar mér var sagt að það tæki því ekki að fara í skóla, út af fyrirhugaðri ferð. Því varð ég að sitja heima og bíða í mánuð á meðan félagarnir fengu að ganga í skóla.

Næsti hluti fjallar um heimkomuna til Íslands árið 1934.

Vefmeistari/Webmaster: AH 2005-2006