-Forsíða
-Æviágrip Guðrúnar
- - Menntun/störf
- - Kanada 1919-1930
- - Ísland 1930-1931
- - Kanada 1931-1934
- - Ísland 1934-1945
- - Árin 1945-1960
- - Eftir 1960
-Æviágrip Páls
- - Í vinnslu
-Ættartala Guðrúnar
- - Stefán, faðir G.St.
- - Friðný, móðir G.St
- - Systkini Guðrúnar
- - Ættingjar í Kanada
-Ættartala Páls
- - Ættartala Páls S.
-Afkomendur
- - Listi
- - Um börnin átta
- - Hópmyndir, börnin.
-Minningarbrot
- - Formáli minning.
- - Hugleiðingar barna
- - Guðrún Elísabet
-Ljósmyndir
- - Nr, 1 (1919-1934)
- - Nr.2 (1935-1945)
- - Nr 3 (börn ung I)
- - Nr 4 (börn ung II)
- - Nr 5 (1959-1979)
- - Nr.6 (í vinnslu))
- - Nr.7 (GSt. sextug))
- - Nr.8 (1979-1999)
- - Nr. 9 (2000-2001)
- - Nr.10 (2002 a)
- - Nr.11 (2002 b))
- - Nr.12 (2003 a)
- - Nr.13 (2003 b)
- - Nr.14 (í vinnslu)
-Tenglar
-English

 

Guðrún Stephensen - Æviágrip 1. hluti: Kanada 1919-1930

Á síðustu árum Guðrúnar sagði hún okkur börnunum ýmsar sögur frá æsku sinni, uppvexti og lífi. Við höfuðm safnað þessum sögubrotum saman og Stefán, elsti bróðirinn, gerði úr þeim snjalla heildarmynd. Stefán setur sig í spor sögumanns sem situr hjá mömmu og spjallar við hana um farinn veg.

Þessum ævibrotum hef ég skipt niður í fjóra hluta. Hér er fyrsti hluti, um æskuár mömmu í Kanada, frá 1919 - 1930.

Ég sit á rúmstokk aldraðrar konu og dáist að gráu, sterku og liðuðu hárinu. Andlitið er orðið mjóslegið og fyllingu vantar í holdið á handleggjunum. Hún lygnir aftur augunum og er værð yfir henni, en ég veit að hún sefur létt, því þetta er móðir mín. Hún hefur alla tíð sofið létt og held ég að sannist best á henni málshátturinn; þunnt er móður eyrað.

Guðrún ásamt söguritara, Stefáni Pálssyni, á Varmalandi í nóv. 2002

Hún bar mig undir belti og ól mig upp, elstan í átta systkina hópi. Þótt hún hafi alla tíð verið hin eina sanna mamma, þá spyr ég nú sjálfan mig: Hvað veit ég eiginlega um þessa konu? Hún fæddist í Kanada fyrir rúmum áttatíu árum og foreldrar hennar voru íslenskir, en höfðu flutt til Kanada hvort í sínu lagi. Hvað veit ég eiginlega um afa og ömmu? Af hverju fóru þau til Kanada? Mamma rumskar og ég nota tækifærið og spyr:

Mamma, þú ert fædd í Selkirk í Kanada 1919. Hvernig stóð eiginlega á að afi og amma voru þar og hvað getur þú sagt mér um þau?


Stefán Stephensen, faðir Guðrúnar. Myndin var fengin að láni frá séra Þóri Stephensen.

Stebbi minn, hann afi þinn Stefán Hansson Stephensen var fæddur á Hlemmiskeiði á Skeiðum í Árnessýslu og samkvæmt kirkjubókum er hann sagður fæddur þann 25. nóvember 1872.

Hann sagði þó alltaf sjálfur að hann hefði verið fæddur þann 23., en vegna annríkis prestsins hafði fæðingin ekki verið skráð í kirkjubækur fyrr en þann 25. nóvember.

Langafi þinn Hans Stefánsson Stephensen hafði flutt að Hlemmiskeiði þegar hann kvæntist Guðrúnu, sem var dóttir Ögmundar bónda á Hlemmiskeiði. Hans keypti síðar jörðina Hurðarbak í Kjós og ólst Stefán afi þinn þar upp þar til fjölskyldan flutti til Reykjavíkur.

Nú ætlar mamma einnig að segja mér frá systkinum afa þeim Ögmundi, Þórunni og Guðrúnu, en ég reyni að stoppa hana af því ég vil vita meira um afa sjálfan.

Þar sem þér kippir í kynið verð ég samt að segja þér eitt um hann langafa þinn Hans, að hann var mikið hraustmenni. Það er sagt frá því að eitt sinn er hann var á gangi niður Laugaveginn hafi Spánverji komið þar út af veitingastað og slangrað utan í Hans. Hans hrinti honum frá sér, en þá tók Spanjólinn upp hníf og ætlaði að ráðast á hann. Hans sló manninn niður, en þá streymdu Spánverjar út af veitingastaðnum til að hjálpa landa sínum. Áður en yfir lauk lágu fjórtán í götunni og mun langafi þinn víst hafa tekið tvo Spánverja í einu og skellt saman kollum þeirra. Hann stikaði síðan reiður í gegnum bæinn og þegar hann kom heim í Hákot í Fischersundi hratt hann hurðinni svo kröftuglega upp að læsing brotnaði. Hann Hans langafi þinn var víst mjög sterkur og kvikur í hreyfingum, en ekki ofsafenginn og hann og Stefán bróðir hans annálaðir fyrir krafta.

Mamma, ég vil vita meira um afa.

Það er sagt um hann afa þinn að þegar hann var ungur á Hurðarbaki hafi honum þótt gaman að dansa og skemmta sér. Hann fór ríðandi á félagsskemmtanir eftir mjaltir á kvöldin og mætti svo galvaskur í mjaltir næsta morgun, eftir að hafa dansað alla nóttina. Hann kynntist stúlku, Guðrúnu Steinadótttur frá Valdastöðum í Kjós og gengu þau í hjónaband í desember 1905. Heimili þeirra var við Hverfisgötu í húsi sem afi þinn hafði byggt í félagi við aðra. Guðrún dó af barnsförum í september 1906 og barnið dó líka.

Afi þinn hafði þá unnið við smíðar í Reykjavík og hélt hann því starfi áfram eftir að Guðrún dó. Afi þinn missti þó síðar hlut sinn í húsinu því hann hafði skrifað uppá víxil fyrir trésmíðameistara vin sinn og þegar víxillinn féll á afa þinn þurfti hann að selja hlut sinn í húsinu við Hverfisgötu.

Fór afi þá vestur?

Nei, það varð síðar. Afi þinn vann við smíðarnar og var góður smiður. Hann var alltaf stoltur af því að hafa verið yfirsmiður við byggingu Konungshússins á Þingvöllum 1907, sem seinna var flutt til og nefnt Ráðherrabústaðurinn. Á þessum árum tók kona til í íbúð afa þíns sem hét Jónína Erlendsdóttir. Hún varð barnshafandi og ól barn í mars 1910. Það var Ásta hálfsystir mín. Afi þinn bjó þó aldrei með Jónínu.

Já, en mamma segðu mér eitt. Þegar ég var lítill botnaði ég aldrei í því hvernig Ásta gat átt systurina Fjólu, sem var ekkert skyld þér þótt þú værir líka systir Ástu. Hvað með Fjólu hálfsystur Ástu?

Hún Jónína Erlendsdóttir mamma Ástu giftist seinna Eggerti nokkrum og átti með honum Fjólu og Leó, sem þú manst eftir á Nesvegi 15.

Hvernig var sambandi afa við Ástu háttað?

Hann var alltaf í sambandi við hana þótt fjarlægðir væru miklar. Hann sendi henni ýmsa hluti og ég fór að skrifast á við hana strax og ég var ritfær.

Mamma, en Kanadaförin?

Stefán, afi þinn hélt til Kanada 1912. Það er lítið vitað um aðdragandann að för hans til Kanada, en ætla má að hann hafi verið óhamingjusamur vegna missis konu, barns og heimilis. Hann vildi því komast í nýtt umhverfi og voru margir þá á förum til Kanada. Ekki er vitað til þess að Stefán afi þinn hafi þekkt neinn fyrir vestan, en hann átti föðurbróður, Jónas Stefánsson Stephensen, sem flutt hafði til Winnepeg og síðan til Sascatchewan. Jónas hafði misst tvö börn í snjóflóðinu á Seyðisfirði þegar hús hans sópaðist út í sjó. Hann hélt þá með konu sína og þrjú börn til Kanada.

Afi þinn fór með skipi til Leith í Scotlandi, þaðan með skipi til Kanada og síðan með járnbraut frá ströndinni til Winnipeg. Þegar til Winnipeg kom, leigði hann húsnæði hjá íslenskum hjónum og vann hann við smíðar (húsbyggingar). Á þessum tíma kynntist hann Friðnýju Gunnlaugsdóttur ömmu þinni.

Nú sígur værð á mömmu og leyfi ég henni að dotta í friði. Á meðan reyni ég að gera mér mynd að afa mínum. Hann dó áður en ég fæddist, en af myndum teknum af honum á fimmtugsaldri virðist mér hann hafa verið sterklegur en samt góðlegur með hátt enni og hárprúður. Líf hans hefur ekki verið neinn dans á rósum fram að Kanadaförinni. Hann giftir sig 33ja ára, en missir eiginkonuna ári síðar af barnsförum og barnið líka. Hann kemur sér upp húsi, en missir það vegna ábyrgða á skuldum kunningja hans. Hann eignast barn í lausaleik er hann er 38 ára, en einhverra hluta vegna tekur hann ekki saman við barnsmóðurina. Síðan heldur hann fertugur út í óvissuna til Kanada. Ég velti því fyrir mér hvort hann hafi leitað huggunar í víni á þessum árum en mamma hefur sagt mér að svo hafi ekki verið. Honum hafi þó ávallt þótt brennivínið gott. Mótlætið virðist ekki hafa bugað hann og geri ég mér í hugarlund að hann hafi haft sterkan karakter.

Nú sé ég að mamma rumskar og finnst rétt að snúa talinu að ömmu.

Mamma, hvað viltu segja mér um ömmu Friðnýju?Friðný Gunnlaugsdóttir. Myndin var góðfúslega fengin að láni hjá séra Þóri Stephensen.

Ja, hún amma þín var góð kona og mátti eins og afi þinn þola sitt framan af ævi. Hún fæddist 18. apríl 1884 í Hlíð í Álftafirði. Faðir hennar Gunnlaugur var bóndi og dagróðrarmaður, giftur Jónínu og áttu þau sjö börn. Þau misstu tvö barnanna.

Eitt barnanna var Vigdís móðir Klöru, sem þú manst eftir af Nesveginum og annað barna hennar með seinni eiginmanni var Pétur hennar Jónínu á Skúlagötu 72.

Þegar mamma var telpa, þá seldu foreldrar hennar mjólk til norsku hvalveiðistöðvarinnar á Langeyri. Mamma var oftast send með mjólkina í brúsa og lærði hún smátt og smátt norskuna af fólkinu þar. Seinna voru Vigdís og mamma til skiptis í vist sem vinnukonur hjá stöðvarstjórafrúnni og alltaf síðan hafði mamma gott vald á norsku máli.

Nú leggst mamma í langar sögur af systkinum ömmu og er með ólíkindum hvað hún kann af þeirra högum að segja. Það mætti halda að hún hefði upplifað þetta sjálf. Ég reyni að takmarka hana við ömmusögu og tekst þokkalega. Mamma heldur áfram.

Mamma fór í barnaskóla í Súðavík. Hún var örvhent en mátti ekki skrifa með vinstri hendinni, samt skrifaði hún fallega með hægri höndinni. Hún vann á Ísafirði og Langeyri við sauma og fiskvinnslu. Mamma trúlofaðist seinna pilti frá Súðavík, Jóni Bjarnasyni, sjómanni, en sú trúlofun entist ekki. Hann hafði verið í löngum róðri á bát frá Ísafirði og hún var að vinna í Álftafirði. Mamma frétti að hann hefði verið í landi í 3 daga og hafði hún ekkert heyrt frá honum. Þegar hann kom, þá var hún að finna að þessu við hann, og þau urðu ósátt, og slitu trúlofuninni. Óvíst er að hún hafi vitað það þá að hún var orðin ófrísk eftir hann. Þegar hún sagði móður sinni frá þunguninni, þá sagði móðir hennar að hún vildi ekki að það fæddist lausaleikskrakki á sínu heimili.

Til stóð að mamma flytti að Langeyri til systur sinnarVigdísar er átti einnig von á barni, en þegar til kom, þá bauð Jónína amma, mömmu að koma heim að Hlíð og vera fram yfir það að hún ætti barnið. Hálfbróðir minn Pétur fæddist síðan 14. maí 1904 og var hjá afa sínum og ömmu á meðan mamma vann að heiman. Heimilið var trúað.

Elísabet systir mömmu, og tólf árum eldri, hafði gifst Einari ættuðum úr Húnaþingi. Fluttu þau hjónin til Kanada á árunum 1909 til 1910 með þrjú börn. Eitt barnanna var Valdheiður Lára eða Heiða eins og hún var kölluð. Þú manst eftir henni. Elísabetu langaði til að fá mömmu vestur til Kanada og það varð úr að hún fór 1913 þegar Pétur var 9 ára gamall. Ákveðið var að hún sendi eftir honum, ef hún gæti hugsað sér að ílendast. Hún og Pétur litli bjuggu á Ísafirði um tíma og var mamma í Kristilegum söfnuði þar kenndum við Arthur Gook. Söfnuður þessi líktist Hjálpræðishernum. Hún hafði lært eitthvað á gítar en hafði aldrei hljóðfæri á heimili. Líklega var það vegna fátæktar.

Nú byrjar mamma að segja sögu af gítar, sem Gunnlaugur bróðir mömmu gaf ömmu, en ég bið hana að geyma þá sögu til betri tíma og halda sig við Kanadaför ömmu.

Árið 1913 fór mamma álíka sjóleið til Kanada og Stefán afi þinn. Þegar hún kom til Winnepeg vann hún fyrst í þvottahúsi. Voru þá engin námskeið fyrir Íslendinga í ensku en hún lét innrita sig á námskeið hjá YMCA (KFUM) með norsku fólki og lærði þannig enskuna. Hún og flestir aðrir Vestur Íslendingar björguðu sér í ensku, en töluðu alltaf íslensku sín á milli og umgengust aðallega Íslendinga. Fór mamma næst að vinna í mötuneyti hjá Jóni Hall organista í íslensku kirkjunni en hann kenndi á hljóðfæri. Þar í mötuneytinu kynntist mamma Stefáni, afa þínum.

Nú sýnir mamma mér skrautlegt giftingarvottorð sem er í ramma uppi á vegg í svefnherbergi hennar. Þar stendur að afi og amma hafi verið „United in Marriage according to the ordinance of God and the laws of Manitoba on the 30th day of September in the year of Our Lord 1914 at Winnipeg.” Afi hefur þá verið 42 ára og amma þrítug.

Mamma, nú ert þú fædd vorið 1919 og er ljóst að foreldrar þínir hafa ekkert verið að flýta sér í barneignum. Hefur þú hugleitt þetta?

Það voru nú stríðsárin á þessum tíma, en annars veit ég ekki hvað skal segja. Pabbi var ekki kallaður í herinn og hafði alltaf vinnu.

Ja, nú nefnirðu nokkuð sem ég hafði ekki hugleitt. Afi hefur náttúrlega verið breskur þegn. Af hverju var hann þá ekki kallaður í herinn?

Það var vegna aldurs. Herskyldan miðaðist við fjörutíu ára aldur, en hann var orðinn fjörutíu og tveggja ára. Pabbi sagði mér að hann hefði fengið merki sem hann átti að bera til þess að sýna að hann væri ekki að koma sér undan herskyldu. Það gegndu annars margir Íslendingar herskyldu og voru drepnir á vígvöllunum í fyrri heimsstyrjöldinni.

Mamma, það vaknar núna spurning hjá mér með þessi bresku þegnréttindi. Hvernig var þessu háttað?

Ég var fædd kanadískur þegn og hafði breskt vegabréf fram eftir aldri. Þegar ég var í Bandaríkjunum á árunum 1940 til 1942 var ég með breska vegabréfið með íslenskri áritun. Ég varð ekki íslenskur ríkisborgari fyrr en við giftingu 1945. Ég veit ekki almennilega hvernig þetta var með pabba og mömmu. Allavega höfðu þau bresk vegabréf er þau fluttu síðar heim til Íslands og héldu við einhverjum réttindum með því að fara af og til í breska konsúlatið.

Hvernig voru heimilishagir fyrstu árin eftir að þú fæddist?

Þegar ég fæddist 11. maí 1919 bjó fjölskyldan á Taylor Avenue í Selkirk í húsi sem pabbi smíðaði. Pabbi vann þar við smíðar. Pétur hálfbróðir minn kom út líklega árið 1921, þá sautján til átján ára. Hann kunni þá ekki ensku. Íslendingar höfðu oft þau ráð til að kenna enskuna að láta unglingana setjast á skólabekk í barnaskóla til að læra enskuna. Pétri leist ekkert á að sitja þarna með krökkum eins og illa gerður hlutur, sérstaklega þar sem hann var fluglæs á íslensku. Krakkarnir voru að læra að lesa og skrifa orð sem hann skildi ekki. Hann beit á jaxlinn og sat á skólabekknum í heila viku og gafst svo upp. Þá sagði hann við Stefán, stjúpföður sinn, "ég get allt fyrir þig gert, Stefán minn, annað en að sitja eins og bjáni í þessum barnaskóla og læra ekki neitt. Viltu ekki taka mig í smíðanám, lofa mér að smíða og vinna með þér.", sem hann gerði. Pétur varð þannig smiður og lærði ensku smátt og smátt. Á veturna fór Pétur á veiðar á Winnnipegosis vatni, og kom síðan aftur til Winnipeg á vorin. Þá færði hann ömmu og mömmu Indíanamokkasínur, útsaumaðar með perlum.

Síðla árs 1923 fluttum við í hvítt, stórt hús sem pabbi byggði við Lipton Street 603 í Winnipeg. Ég eignaðist lítinn bróður þann 12. febrúar 1925 og var hann skírður Gunnlaugur Hans. Húsið var í hverfi sem mikið af Íslendingum bjó í. Göturnar í Winnipeg eru mjög reglulegar. Þær sem liggja frá austri til vesturs heita Street, og þær sem liggja frá norðri til suðurs heita Avenue. Kannski var það öfugt?


Guðrún með litla bróður, Gunnlaug Hans, sennilega 1926, þá 7 ára.

Nokkrum árum seinna seldi pabbi húsið við Home Street og keypti eldra hús handa fjölskyldunni við 684 Simcoe Street. Við bjuggum í því húsi til 1930. Áður en við fluttum þangað inn leigðu foreldrar mínir í nokkra mánuði í húsi þar sem nokkuð var um músagang. Eitt kvöldið heyrði ég mikil læti og hafði þá pabbi fundið mús í svefnherberginu sínu. Ég kom að honum þar sem hann stóð í náttserknum uppá stól með kúst á lofti, Elísabet, Guðrún og Friðný og var það kostuleg sjón sem ég hef hlegið oft að seinna. Pabbi var annars karlmenni og óhræddur og veit ég ekki af hverju hann brást svona við í þetta skipti.


Guðrún Guðbjörg 9 ára gömul. Myndin var tekin í Arnes, Manitoba.

Sjá framhald af sögunni, 1930-1931 hér.

Vefmeistari/Webmaster: AH 2005-2006