-Forsíða
-Æviágrip Guðrúnar
- - Menntun/störf
- - Kanada 1919-1930
- - Ísland 1930-1931
- - Kanada 1931-1934
- - Ísland 1934-1945
- - Árin 1945-1960
- - Eftir 1960
-Æviágrip Páls
- - Í vinnslu
-Ættartala Guðrúnar
- - Stefán, faðir G.St.
- - Friðný, móðir G.St
- - Systkini Guðrúnar
- - Ættingjar í Kanada
-Ættartala Páls
- - Ættartala Páls S.
-Afkomendur
- - Listi
- - Um börnin átta
- - Hópmyndir, börnin.
-Minningarbrot
- - Formáli minning.
- - Hugleiðingar barna
- - Guðrún Elísabet
-Ljósmyndir
- - Nr, 1 (1919-1934)
- - Nr.2 (1935-1945)
- - Nr 3 (börn ung I)
- - Nr 4 (börn ung II)
- - Nr 5 (1959-1979)
- - Nr.6 (í vinnslu))
- - Nr.7 (GSt. sextug))
- - Nr.8 (1979-1999)
- - Nr. 9 (2000-2001)
- - Nr.10 (2002 a)
- - Nr.11 (2002 b))
- - Nr.12 (2003 a)
- - Nr.13 (2003 b)
- - Nr.14 (í vinnslu)
-Tenglar
-English

 

Guðrún Stephensen - Æviágrip 4. hluti: Ísland 1934-1936

Á síðustu árum Guðrúnar sagði hún okkur börnunum ýmsar sögur frá æsku sinni, uppvexti og lífi. Við höfuðm safnað þessum sögubrotum saman og Stefán, elsti bróðirinn, gerði úr þeim snjalla heildarmynd. Stefán setur sig í spor sögumanns sem situr hjá mömmu og spjallar við hana um farinn veg.

Þessum ævibrotum hef ég skipt niður í fjóra hluta. Hér er fjórði hluti, um komu fjölskyldunnar heim til Íslands, stríðsárin, og fyrstu hjónabandsár mömmu, 1934-1946.

Langaði þig aftur til Íslands?

Nei, reyndar ekki. Ekkert sérstaklega.

Friðný á leið til Íslands 1934, þá 68 ára að aldri.

Fjölskyldan kom öll til Íslands skömmu fyrir jól 1934. Pabbi innréttaði kjallarann í Hólabrekku og bjuggum við þar í 2-3 ár. Árið 1938 fluttum við að Garðastræti 11a, öðru nafni nefnt Hákot við Fischersund. Pabbi og þrjú systkini hans höðu fengið húsið í arf eftir Högna bróður sinn og bjuggum við þar til ársins 1941 er pabbi dó.

Ég sé að nú er mamma farin að þreytast, enda búin að koma víða við á umrótatímum fyrir 60 til 70 árum. Ég hjálpa henni aftur uppí rúm og hún leggur sig smástund. Ég kem nokkru síðar að rúmi hennar og geri mig líklegan til að kveðja. Sé samt að hún er enn á valdi minninganna og leyfi henni að halda áfram. Bið hana samt að gefa mér stutt yfirlit í tímaröð áður en dýpra er haldið.

Já Stebbi minn, þennan vetur sem við komum heim byrjaði ég nám í Kennaraskólanum sem óreglulegur nemandi. Inngöngualdur var 18 ára en ég varð 16 vorið sem ég fór í prófin. Mér var sagt að ég fengi að halda áfram námi í skólanum ef ég fengi 1. einkunn. Það tókst.

Sumarið 1935 er ég var 16 ára vann ég í Grænuborg. Ég vann í eldhúsinu aðra hvora viku en passaði börnin hina vikuna. Um haustið gerðist ég reglulegur nemandi í Kennaraskólanum. Það haust komu tveir eða þrír nýir nemendur í skólann frá Reykholti og settust í 2. bekk með mér. Pabbi þinn var einn þeirra. Mér fannst gaman að Páli því hann hermdi eftir kennurunum, sérstaklega Séra Sigurði Einarssyni. Sigurður komst að þessu og lagði um tíma fæð á Pál. Það lagaðist þó seinna.

Sumarið 1936 vann ég aftur í Grænuborg Ég man að Pabbi þinn var í vegavinnu á Holtavörðuheiði þetta sumar. Ástarsamband okkar var þó ekki hafið á þessum tíma. Næsta vetur var ég í þriðja bekk Kennaraskólans og tók kennarapróf vorið 1937, þá nýorðin 18 ára. Um sumarið starfaði ég sem kennari í Grænuborg en var ráðin forstöðukona í Vesturborg um haustið. Vesturborg var þá leikskóli opinn að vetrarlagi. Ég tók nemendur í aukatíma í ensku og fékk 75 aura á tímann. Pabbi þinn kenndi þennan vetur á Seltjarnarnesi. Næstu tvö árin var ég forstöðukona í Vesturborg á veturna, en kennari í Grænuborg á sumrin.

Veturinn 1939 til 1940 las ég tvítug undir stúdentspróf utanskóla og kenndi ensku í einkatímum. Veturinn áður hafði ég tekið part af stúdentsprófum og tók vorið 1940 stúdentspróf með 6. bekkingum ásamt pabba þínum, sem var þá kennari í Viðey og las einnig utanskóla undir stúdentspróf. Prófin fóru fram í Alþingishúsinu því breska setuliðið hafði lagt undir sig Menntaskólann.

Mamma mín. Þetta var fínt yfirlit. Nú er komið haustið 1940. Var það ekki þá sem þú fórst til Bandaríkjanna?

Jú Stebbi minn. Mig langaði að mennta mig meira í forskólakennslu og hélt til New York með gamla Gullfossi um haustið. Velgjörðarmaður minn Steingrímur Arason og Sína kona hans voru þá í New York og tóku á móti mér. Hann ætlaði að koma mér í Teachers College Columbia University en þaðan var hann með gráðu. Umsóknin hafði þó komið of seint og fór ég því fyrsta veturinn í Georgia State Womens College. Fyrir góð meðmæli frá Steingrími Arasyni og Freysteini Gunnarssyni, skólastjóra fékk ég styrk frá menntamálaráðuneytinu fyrir fargjaldinu vestur.

Vorið 1941 fór ég beint frá Georgia til Evanston í útjaðri Chicago. Þar var ég í sex vikur við nám í National College of Education og vann mér inn nokkra punkta. Þaðan fór ég beint til New Jersey og vann sem leiðbeinandi í sumarbúðum YWCA (KFUK). Næsta vetur var ég svo í Teachers College Columbia og sumarið 1942 vann ég í sumarbúðum Westchester County við Hudson ána. Ég minnist þess að Westchester var í nágrenni við Sing Sing fangelsið og fór ég út á sömu járnbrautarstöð og þeir sem áttu erindi í fangelsið.

Nú fara Bandaríkin í stríð á þessum árum. Manstu eftir einhverju sérstöku í því sambandi?

Já. Eftir árásina á Pearl Harbour í desember 1941 voru nemendur boðaðir um hádegi til að hlusta á útvarpsræðu Franklin Delano Rosevelt. Stúdentarnir voru frá 40 löndum, en japönsku stúdentarnir mættu ekki. Líklega hafa þeir verið teknir fastir um leið. Ég man að Japanir í Kaliforníu voru settir í heilan bæ og voru þar öll stríðsárin. Japanir sem voru bandarískir þegnar frá fæðingu voru þarna líka. Þá var myrkvunin í New York mjög eftirminnileg. Breiða þurfti fyrir glugga á kvöldin því ekki mátti sjást ljós á strandlengju Bandaríkjanna. Ég var einskonar loftvarnavörður í heimavistinni og varð að fylgjast með því, ásamt fleirum, að fyrir myrkur væri dregið væri fyrir alla glugga. Verið var að kalla strákana í herinn og minnist ég þess að um sumarið, er ég bjó hjá Steingrími og Sínu, hafði piltur boðið mér í bíó og ætlaði að sækja mig klukkan sex. Klukkan fimm var bankað og fór ég til dyra með rúllur í hárinu. Þar var þá pilturinn komin með blómvönd í fanginu og tilkynnti mér að hann yrði að afboða bíóferðina því hann hefði verið kvaddur í herinn og ætti að mæta morguninn eftir. Ég vil þó nefna að það var ekkert á milli mín og þessa stráks. Hann skrifaði mér þó seinna.

Þar sem pabbi hafði dáið sumarið 1941 (7. júlí) og mamma átti í erfiðleikum ákvað ég því um sumarið 1942 að fara heim og aðstoða hana og Gunnlaug bróður. Erfitt var með ferðir á þessum tíma en ég man að einhver skip voru skotin niður í skipalestinni sem ég var í. Haustið 1942 kom ég svo heim til Íslands. Þá voru erfiðleikar með að fá húsnæði. Mamma bjó með Gunnlaug í þröngu húsnæði hjá Þórunni mágkonu sinni. Ég bjó því hjá Jónu Kristínu vinkonu minni í 2 mánuði. Mamma fékk þá húsnæði á Þórsgötu og svaf ég í stofunni hjá henni.

Ég kom það seint heim til Íslands að búið var að ráða í leikskóla og engin kennarastörf að fá. Ég las þá auglýsingar og réði mig í vinnu hjá Bandaríkjaher á skrifstofu á Laugavegi. Skrifstofan var líklega þar sem Mál og menning er núna. Ég þýddi og túlkaði, en aðallega var um að ræða samninga við bændur og jarðeigendur. Við ráðninguna tók ég fram að ég vildi ekki fara með hermönnunum á vettvang í jeppunum. Það kom í hlut annarra. Hermennirnir voru almennilegir í framkomu, en allir sem komu á skrifstofuna spurðu um íslensku stúlkuna og pískruðu. Ég sagðist vera trúlofuð og fékk þá að vera í friði. Mér er það minnistætt að af og til voru loftvarnaæfingar. Ég hafði þá um tvennt að velja. Annaðhvort að fara niður í kjallara eða taka gasgrímu úr skrifborðsskúffu og hengja hana um hálsinn. Ég valdi seinni kostinn og hélt áfram vinnu með grímuna um hálsinn. Þetta var skrítin tilfinnig.

Er pabbi kominn inn í myndina á þessum tíma?

Já, við pabbi þinn höfðum verið í lauslegu sambandi áður en ég fór út og skrifuðumst við á meðan ég var úti. Við drógumst hvort að öðru er ég kom heim og sagði hann mér strax frá því að stúlka í Keflavík væri ófrísk af hans völdum, en hann ætlaði sér ekki neitt með hana. Faðir hennar og bróðir hefðu gert sér ferð á hans fund, þar sem hann bjó á Garði, til þess að fá á hreint með hug hans til stúlkunnar. Hann hafði sagt þeim sem var. Samband okkar Páls byrjaði að þróast. Ég man eftir að Páll bauð mér á stúdentaball 1. desember 1942. Við dönsuðum mikið og skemmtum okkur vel. Í lok ballsins voru dregnir út vinningar og vann ég kampavínsflösku. Ég drakk eitthvað úr flöskunni og var hálf skrítin í vinnunni morguninn eftir. Könunum var skemmt og gerðu grín að þessu.

Í byrjun árs 1943 kom Jóhannes formaður Barnaverndarnefndar að máli við mig og bað mig að vinna í einn mánuð að Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði í forföllum gæslukonu. Á Kleppjárnsreykjum var þá rekið dvalarheimili fyrir afvegaleiddar stúlkur á aldrinum 14-16 ára. Ég sló til og fór þangað. Forstöðukonan var indæl, en það var strok í stelpunum.

Þú sagðir mér einhvern tímann frá uppákomu með hermenn sem voru í nágrenninu. Hvað átti sér stað?

Það var hermannakampur í Hvítársíðunni og óku hermennirnir framhjá Kleppjárnsreykjum. Eitt sinn kipptu þeir tveimur stelpum uppí jeppa sinn og hurfu á braut. Ekkert farartæki var þá á Kleppjárnsreykjum og lagði ég því land undir fót ásamt smiði er var á staðnum og gengum við í kampinn, en það var alllöng leið. Þegar þangað kom voru stúlkurnar farnar og enginn yfirmaður við. Ég man að undirmenn sem við ræddum við undruðust enskumælgi mína. Ég og smiðurinn urðum að ganga til baka aftur, en er heim var komið höfðu stelpurnar skilað sér.

Næsta dag kom borðalagður foringi ásamt íslenskum lögreglumanni að Kleppjárnsreykjum. Foringinn baðst afsökunnar á framferði hermannanna en það fór fyrir honum eins og undirsátunum daginn áður, að hann var dolfallinn yfir því að hitta fullkomlega enskumælandi stúlku í þessu umhverfi.

Er eins mánaðar ráðningartíminn var liðinn fór ég aftur til Reykjavíkur. Stelpunum á heimilinu líkaði það ekki og gripu þær til sinna ráða. Nokkrar struku og sögðust ekki koma aftur fyrr en ég væri komin til starfa á ný. Það varð úr að ég hélt aftur uppí Borgarfjörð í sveitasæluna og vann þar til vors.

Í sumarbyrjun 1943 réði ég mig til starfa sem forstöðukona í Suðurborg við Eiríksgötu sem var í sama húsi og fæðingarheimilið var lengi í. Ég hafði herbergi á staðnum og vann þarna í eitt ár. Samband okkar Páls varð æ nánara og kom hann oft í heimsókn til mín. Við ákváðum að trúlofa okkur, en ekki stóð til að setja upp hringa. Við ákváðum þó að það væri skynsamlegt með tilliti til heimsókna Páls. Við settum upp trúlofunarhringa á Sumardaginn fyrsta 1944 og var slegið upp partíi í kaffistofunni í Suðurborg. Gestirnir voru allsundurleitur hópur. Starfsstúlkur úr Suðurborg, Skúli Thoroddsen og fleiri vinir Páls úr Háskólanum , Jóna Kristín og nokkur systkini Páls þau Óli, Sigrún og Jón, ef ég man rétt. Á þessum árum var til siðs við slík tækifæri að syngja við gítarundirleik og var það gert þarna. Ég minnist þriggja lokaðra munna á fyrrnefndum systkinum er söngurinn ómaði.

Á þessum árum var deilt var um uppeldis- og kennslumál. Steingrímur Arason var menntaður í Ameríku en Ísak Jónsson í Svíþjóð. Stefnur þeirra rákust á og komst Ísak langt á frekjunni. Ísak beitti sér fyrir því að kona var ráðinn í Suðurborg án samráðs við mig sem var þá forstöðukona. Mér mislíkaði þetta og sagði upp starfinu vorið 1944.

Sumarið 1944 rak Rauði Krossinn sumardvalarheimili fyrir börn úti á landi í því skyni að forða þeim frá yfirvofandi loftárásum í Reykjavík. Eitt heimilanna var í Menntaskólaselinu og réði ég mig þangað sem forstöðukona. Þar dvöldu um 40 börn. Ég man að þetta sumar var einskaklega hlýtt og veður fallegt.

Haustið 1944 var Lúðvík Guðmundssyni skólastjóra myndíða- og handlistaskólans falið að endurreisa upplýsingaskrifstofu stúdenta. Ég aðstoðaði hann við þetta fram að áramótum. Er Lúðvík bað mig að koma eftir áramót sagði ég við hann: „Ég er nú ekki viss um að það passi”. “Nú af hverju ekki?” spurði Lúðvík. „Hefurðu ekki tekið eftir því að ég er barnshafandi og er að fá bumbu?” svaraði ég. „Ja, ég hef bara ekkert tekið eftir því” sagði hann þá. Bumban reyndist mjög sýnileg eftir áramót og lauk þá vinnu minni þar.

Voruð þið pabbi farin að búa saman á þessum tíma?

Nei. Það var óttalegt húsnæðisbasl á öllum og erfitt að fá húsnæði. Pabbi þinn bjó á Garði en ég bjó hjá mömmu á Bræðraborgarstíg 34 í kristilegu andrúmslofti því í húsinu var rekið heimatrúboð. Við Páll giftum okkur 14. apríl 1945 en fengum ekki húsnæði strax. Ég bjó hjá mömmu þegar þú fæddist þann þann 3. júlí, en þá fengum við Páll herbergi og eldhús í næsta húsi, en bara til eins mánaðar. Reyndar var Páll önnum kafinn þennan vetur því hann var í próflestri og útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskólanum um vorið. Það varð síðan úr að Páll réði sig sem Garðprófast og fengum við um sumarið tveggja herbergja íbúð á fyrstu hæð á nýja Garði með aukaeldhúsi í kjallara. Rikki föðurbróðir þinn, sem þá var þrettán ára, fékk að sofa í þessu eldhúsi. Ég var því til að byrja með með þig á brjósti og Rikka í fæði. Að öðru leyti fékk hann þjónustu hjá Sigrúnu systur sinni.

Stebbi minn. Þú manst kannski eftir forfeðravísunni sem hann pabbi þinn orti þegar þú varst skírður.

Já vísuna kann ég:

Nú er komið nafnið manns,
nú skal rakinn ættstafur.
Stefán, Guðrún, Stefán, Hans,
Stefán, Stefán, Ólafur.

Vísan nær fram til Ólafs Stephensen stiftamtmanns er bjó Viðey frá 1793 til æviloka, árið 1812. Þau sem nefnd eru í vísunni eru:

  • Stefán Pálsson f. 3.07.1945
  • Guðrún Stephensen f. 11.05.1919
  • Stefán Hansson Stephensen f. 25.11.1872, trésmiður í Rvk og í Winnipeg
  • Hans Stefánsson Stephensen f. 21.11.1843, bóndi á Hurðarbaki í Kjós
  • Stefán Stefánsson Stephensen f. 13.09.1802, prestur á Reynivöllum í Kjós
  • Stefán Ólafsson Stephensen f. 27.12.1767, amtmaður í Vestur-amtinu
  • Ólafur Stefánsson (Stephensen) f. 3.05.1731, stiftamtmaður í Viðey.

Nú er orðið áliðið kvölds og kveð ég því mömmu og þakka skemmtilega frásögn. Ég hef orðið margs vísari um uppruna minn og er ákveðinn í að ræða seinna við mömmu um búskaparár hennar með pabba.


Ekki gafst okkur tækifæri til að heyra nánar frá mömmu um búskaparárin. En við erum að tína saman búta úr æviferli hennar eftir þetta. Næsta hluta kalla ég barneignarárin.

Vefmeistari/Webmaster: AH 2005-2006