HEIMASÍÐA
GALLABUXNAKLÚBBSINS

Bók 1 USA

Bók 1 Nýja Sjáland

Bók 2 USA


Velkomin til Gildu!

Gallabuxnaklúbburinn er stórkostleg bók eftir Ann Brashares. Hún kemur út haustið 2003 hjá Máli og menningu í þýðingu Önnu Heiðu Pálsdóttur.

Þetta voru bara venjulegar, mjúkar gallabuxur, keyptar í búð með notuð föt, þangað til stelpurnar fjórar fóru að máta þær til skiptis. Fjórar stelpur, ofboðslega góðar vinkonur, sem eru að fara í sitt hverja áttina yfir sumarið. Vinkonurnar eru með ótrúlega ólíkt vaxtarlag, ólíkan bakgrunn og ólíka persónuleika. Samt passa buxurnar fullkomlega á þær allar og gera hverja þeirra fyrir sig kynþokkafulla, langleggjaða og sjálfsörugga.

„Þetta eru töfrabuxur!“ ákveða vinkonurnar og gera með sér samning um að skipta þeim jafnt á milli sín, að senda þær fram og tilbaka yfir sumarið á milli þeirra staða sem þær dvelja.

Gullfallega, fjarræna LENA ætlar til Grikklands til að eyða sumrinu hjá afa sínum og ömmu. Sterka íþróttamanneskjan BRIDGET er á leið í fótboltaæfingabúðir í Baja í Mexíkó. Skapheita CARMEN ætlar að hafa fráskilinn pabba sinn út af fyrir sig í Suður-Karólínu, og hin uppreisnargjarna TIBBY verður eftir heima til að þræla fyrir lágmarkslaunum í Wallman's.

Yfir sumarið öðlast buxurnar þann heiður að verða táknrænar fyrir stuðning klúbbfélaganna en þær leiða líka allar stelpurnar í gegnum viðkvæma en lærdómsríka lífsreynslu. Stelpurnar kynnast ást og hugrekki, dauða og fyrirgefningu.

Saga hverrar stelpu er einstök og heillandi og frásagnarstíllinn er nútímalegur. Líkt og buxurnar hendist lesandinn fram og til baka á milli fjögurra ævintýra og söguþráðurinn er kryddaður sendibréfum og skemmtilegum tilvitnunum.

Ann Brashares hefur skapað fjórar einstakar persónur og ofið saman sögur þeirra í eina unglingasögu sem er bæði fersk og fangandi.

Mælt er með bókinni fyrir 12 ára og eldri.

Hér eru fréttir af bíómyndinni, líka hér.

 

Síðast uppfært 17. júní 2003
Þennan vef gerði Anna H. Pálsdóttir. þýðandi bókarinnar.