-- Yfirlit
-- CV
-- Ævisaga
-- Áhugamál
-- Félagsstörf

 

ÁHUGAMÁL

Ég á mér fullt af áhugamálum. En einhvern veginn gerist það að sum þeirra ná hámarki á vissu tímabili lífs míns og dala svo á öðrum tíma. Það þýðir þó ekki að ég hafi misst áhugann - heldur fengið meiri áhuga á einhverju öðru það árið eða áratuginn. Ég tek fram að ég hef aldrei verið mikil útiverumanneskja þannig að á mínum lista eru ekki fjallgöngur eða maraþonhlaup!

Hér er yfirlit og neðar á síðunni fer ég nánar í hvert og eitt:

Bókmenntir
Fjallað er ítarlega um fræðimennsku í öðrum hluta heimasíðunnar en hér tala ég um skemmtun. Síðan ég man eftir mér hafa bækur verið mitt helsta áhugamál. Þegar ég var lítil las ég allar bækur sem ég komst yfir eftir Enid Blyton, og las þær svo aftur og aftur. Þá var Anne-Cath Wesley (Óli Alexander) í miklu uppáhaldi og auðvitað Astrid Lindgren.
...... Mér fannst hræðilegt að koma á stað þar sem engar bækur voru til. Fyrsta verk mitt á nýjum stað var að skanna bókahillurnar. Þegar ég kom tíu ára gömul í Skaftafell til að eyða þar sumrinu fann ég mér til mikillar ánægju fullt af bókum sem geymdar voru í skáp með glerhurð í stofunni. Þar voru til dæmis margar appelsínugular tauklæddar bækur eftir Margit Ravn - ástarsögur sem féllu vel í kramið hjá mér.
...... Bókin sem breytti lífi mínu? Örugglega Zen and the Art of Motorcycle Maintenance. Ég keypti hana þegar ég var á hátindi mótórhjóladellunnar og vissi að þetta væri fræg metsölubók. Ég hélt að hún væri um mótórhjól! En hún er um lífið og tilveruna og litlu hlutina sem gera tilveruna dásamlega.

Ritlist
Fólk talar mikið um myndlist og listina að skapa hana en eitthvað annað gerist þegar um bókmenntir er að ræða. Ekki er oft talað um listina sjálfa, hvaða áhöld þurfi til hennar og hvernig hægt er að rækta hana. Ég hef lesið heil ósköp af bókum um efnið og haldið námskeið fyrir áhugasama höfunda, bæði á íslensku og ensku (sjá kennsla). ...... Það er ótrúlega góð æfing að skrifa bara eitthvað í svona 10 mínútur á dag. Smá leikfimi fyrir hugann til að halda sköpunargleðinni lifandi.

Myndlist
Mér finnst afskaplega skemmtilegt að mála með olíulitum. Þetta er eitt af þeim áhugamálum sem sitja á hakanum vegna anna í daglegu lífi. Hér er sýnishorn af nokkrum málverkum eftir mig (smelltu á myndina til að sjá stærra eintak):

Hestar í Skagafirði (1978). Olía á striga.
Hestar í Skagafirði (1978). Nærmynd
Hof í Vatnsdal (1983). Olía á striga.
Vetur á Þingvöllum. Olía á striga.

Heimasíðugerð
Ég hef fundið mikla útrás fyrir sköpunargleði mína með því að gera heimasíður, og hef unnið alls konar efni, m.a. þessa síðu sem þú ert að skoða. Það byrjaði árið 1997 þegar ég setti upp Harry Potter síðu fyrir unga aðdáendur vegna þess að ég vissi hvað þau höfðu mikinn áhuga á bókunum. Svo gerði ég fleiri síður í gamni, bæði fyrir fjölskylduna, vini og aðra aðila - og einnig fyrir nemendur mína. Ef þú vilt skoða yfirlitssíðu um þær, smelltu hér.

Líkamsrækt
Mig hefði nú aldrei grunað að líkamsrækt yrði eitt af mínum áhugamálum, sérstaklega þar sem ég hlaut lægstu einkunn sem gefin hefur verið fyrir leikfimi á stúdentsprófi í M.R.! Í barna- og gagnfræðaskóla forðaðist ég leikfimi eins og heitan eldinn, aðallega vegna þess að ég var hrædd við hestinn og slána - þessi tvö sakleysislegu tæki hafa veitt mér margar martraðir. Hins vegar finnst mér skemmtilegt að hreyfa mig og hafa stæltan líkama. Enginn fær stæltan líkama af því að standa í biðröð við hestinn í leikfimisal. Ég fer á frábæran stað, Hreyfingu, helst 5-6 sinnum í viku, til þess að hlusta á geggjaða tónlist, stíga fram og aftur á palla og skemmta mér dásamlega. Þar á ég góða félaga sem alltaf er gaman að hitta.

Mótórhjól
Einu sinni hefði ég nú byrjað á þessu áhugamáli en þótt ég hafi ekki átt mótórhjól í mörg ár er áhuginn alltaf fyrir hendi. Þegar ég var um tvítugt fékk ég vinnu í Álafoss-búðinni við Vesturgötu og var þá í lögfræði við Háskóla Íslands. Ég þurfti að þeytast þarna á milli á sem skemmstum tíma, svo ég keypti mér litla skutlu, Hondu 50.


Þarna er ég með fávitasvip á Hondu 350 XL. Ég var sjálf "XL" sýnist mér ;=).

HONDA XL 350: Fljótlega fannst mér vélhjólið of lítið og keypti þá Hondu XL 350 sem var eins konar blanda af götuhjóli og torfæruhjóli. Ég lék mér stundum í sandhólum á henni en lenti einu sinni í slæmri reynslu í Rauðhólum þegar hjólið drap á sér í brattri brekku. Ég datt af, rúllaði niður brekkuna og endaði með þetta ferlíki ofan á mér. Heitur mótórinn brenndi á mér fótleggina og mér tókst ekki að koma hjólinu af mér. Ég var þó svo heppinn að tveir menn á hestbaki áttu leið þarna framhjá og hjálpuðu mér að losa gripinn. Ég var hölt í nokkra daga en hélt áfram mínu striki.


Á Hondu CB 750 fyrir framan heimili mitt í Skerjafirði 1978

HONDA CB 750: Ofangreind reynsla varð til þess að ég missti áhuga á torfæruhjólum. Þegar mótórhjólabakterían var búin að gegntaka mig fékk ég mér gullfallega, kolsvarta Hondu með 750 kúbika vél. Þessi var æði! Skreið mjúklega eftir götum Reykjavíkur að degi sem nóttu og svo lagði ég henni á Hallærisplaninu á kvöldin og spjallaði við annað mótórhjólafólk: Ara og Sigga Vilhjálmsyni, Villa úr Hafnarfirði, Arnar Arinbjarnar, Hauk, Gunna GS, Völlu og Boggu. Við skemmtum okkur vel, bæði á hjólunum og í Klúbbnum (þetta var 1978-1980). En þetta hjól átti sér sorglegan endi. Ég hitti kunningja minn- sem átti stórt mótórhjól - fyrir utan Klúbbinn seint um kvöld. Hann var nýkominn úr vinnunni, á vörubíl fyrirtækisins. Hann fékk að „taka í“ hjólið smástund og bauð mér að sitja í bílnum á meðan til að orna mér. Eftir smástund sá ég fullt af sírenum á Kringlumýrarbrautinni, rétt ofan við Klúbbinn. Ég gekk þangað og sá strax að harmleikur hafði gerst: kunningi minn hafði ekið á gangandi vegfaranda, átján ára pilt, sem lést í slysinu. Kunningi minn slasaðist einnig, en ekki lífshættulega. Hjólið var talið gerónýtt.

KAWASAKI Z900: Nokkru eftir slysið kom þessi kunningi minn, sem var auðvitað niðurbrotinn, með hjólið sitt til þess að bæta mér skaðann þar sem tryggingarnar bættu ekki hjólið mitt. Hann hafði þá nýlega „brætt úr“ hjólinu og það þurfti að „bora það út“. Systir mín í Bandaríkjunum keypti fyrir mig sveifarás í hjólið, ég fór með mótorinn á verkstæði og lét bora hann út - fékk meira rúmmál í vélina - og Ari Vilhjálmsson og Haukur Helgason hjálpuðu mér að setja hjólið saman í bílskúrnum hjá Stebba bróður mínum í Lálandi. Ég átti hjólið ekki lengi eftir það, mig langaði aftur í Hondu, svo ég seldi þetta fína hjól til Bíldudals, minnir mig.


1980: Á Hondu CB 900F með vinkonu mína (Völlu?) aftan á

HONDA CB 900F: Ég var alltaf að vinna til að eignast pening fyrir nýju hjóli. Einn daginn gekk ég inn í verslun Gunnars Bernharð og pantaði hjól sem var nýbyrjað að framleiða. Auðvitað valdi ég eldrauðan lit! Þetta var fyrsta hjólið af þessari tegund sem kom til landsins og vakti mikla athygli hvert sem ég fór. Best fannst mér þegar fólk sagði mér að 900-vélar væru ekki til hjá Hondu, bara 750 og 1000, og mörgum fannst ég asni að halda að svona hjól væri til! Sumarið 1980 fékk ég vinnu á hóteli í Noregi og tók hjólið með mér. Það var ótrúlega góð upplifun að renna fleyinu eftir sléttum götum og fjallvegum Noregs. Eftir næstum 2ja mánaða dvöl lenti ég í lausamöl í beygju á malbikuðum vegi og hjólið, ásamt mér, hentist örugglega 100 metra. Við fleyttum kerlingar. Það var kraftaverk að ég skyldi ekki slasast meira en ég gerði, mestallt mar, brákað viðbein, blæðing í vöðva og svoleiðis. Ég fór ásamt flakinu heim til Íslands til að sleikja sárin.Tryggingar bættu mér hjólið, það var sem betur fer tryggt í bak og fyrir. Varði, sem var þá Íslandsmeistari í motocross, keypti af mér flakið til að endurbyggja og nota í kvartmíluna.

SUZUKI GS750: Ég var ekki tilbúin að kaupa svona stórt og dýrt hjól í augnablikinu en fékk mér næstum glænýjan, rauðan og fallegan Ford Mustang. Hann vakti álíka athygli og Hondan mín. En ég gat ekki lengi án mótórhjóls verið og þrátt fyrir allar fortölur föður míns keypti ég mér Suzuki GS 750. Það hjól hafði nokkru áður verið í eigu félaga míns, Gunna GS (viðurnefnið er þaðan) sem bakar í Breiðholtinu. Hjólið varð landsfrægt fyrir það að vera á plötualbúmi HLH-flokksins. Ég held reyndar að 750 Hondan mín hafi verið það líka. Ferill þess hjóls endaði þegar ég keypti Biðskýlið við Suðurgötu. Þar byrjaði ég í bísniss og hafði hvorki tíma né fé til að sinna mótórhjólum. Þannig hefur það verið allar götur síðan en ef ég heyri ljúft suð í mótórhjóli eða finn lyktina af benzíni kemur sælusvipur á mig.

Kannski fæ ég mér aftur mótórhjól einhvern tíma á elliárunum ...

 

Vefmeistari/Webmaster: anna (hjá) ritlist.is