-- Yfirlit
-- CV
-- Ævisaga
-- Áhugamál
-- Félagsstörf

 

ÆVISAGA

Ég fæddist þann 14. maí 1956 á fæðingardeild Landspítalans í Reykjavík - og er í nautsmerkinu. Foreldrar mínir eru Páll S. Pálsson, hrl., f. 29.01.1916, d. 11.07.1983, og Guðrún Stephensen, kennari, f. 11.05.1919, d. 17.12.83. Sjá meira um þau og fjölskylduna undir liðnum „fjölskylda" hér til hliðar.


Nafnið mitt: (Aðalbjörg) Anna Pálsdóttir var föðursystir mín, f. 24. maí 1928. Hún giftist Ragnari Stefánssyni, bónda á Skaftafelli í Öræfum árið 1950. Þau eignuðust tvö börn, Jóhönnu (f. 22.03.1951, d. 09.06.1952) og Einar Stefán (f. 02.08.1952, d. 24.07.1958). Anna lést þann 28. maí 1956, tveimur vikum eftir að ég fæddist. Hún var 28 ára gömul. Ég er stolt af þvi að bera nafn hennar, ásamt Önnu Maríu, dóttur Ragnars og Laufeyjar í Skaftafelli. Þarna er ég hjá leiði nöfnu minnar í Skaftafellsbrekkum árið 2004.


Innan við eins árs á Kvisthaga 19.

Uppvaxtarár
Þegar ég fæddist bjuggu foreldrar mínir ásamt eldri systkinunum sex á efri hæð og í risinu á þrílyftu húsi, sem pabbi byggði ásamt öðrum að Kvisthaga 19. Fjölskyldan átti yndislegt sumarhús á Þingvöllum, skammt frá forsætisráðherra-bústaðnum og Valhöll. Þar eyddi ég mínum fyrstu sumrum í faðmi fjölskyldunnar.

Árið 1960 flutti fjölskyldan að Steinnesi við Skerjafjörð og til þeirra kaupa þurfti að fórna sælureitnum á Þingvöllum.

Rétt hjá Steinnesi er Reynistaður - þar var m.a. kúabú um þessar mundir. Seinna var stóri Skerjafjörður skipulagður betur: Þvervegur varð að Einarsnesi, Baugsvegur að Bauganesi, og Steinnes varð að Skildinganesi 28.

Þrú sumur (1968-1970) var ég í sveit hjá Ragnari og Laufeyju í Skaftafelli í Öræfum. Það var dásamlegur tími og náttúran í Skaftafelli á sér stað í hjarta mínu.

Menntun
Ég gekk í Melaskóla hjá Fríðu Sigurðardóttur í 1. - 4. bekk. Síðan tók Axel Sigurjónsson við kennslunni í 5. - 6. bekk. Þá fór ég í Hagaskóla, og lauk þaðan landsprófi 1972. Uppáhaldskennarinn minn á þessum tíma er tvímælalaust Magnús Odsson sem nú er forystumaður í ferðamálum. Leiðin lá í MR, þar sem ég stundaði nám í nýmáladeild og lauk stúdentsprófi 1976.

Eftir stúdentinn hafði ég hugsað mér að feta í fótspor pabba og eldri bræðra minna, Stefáns og Páls Arnórs, og innritaði mig í lögfræði en námið reyndist ekki eins skemmtilegt og ég hélt. Ég fékk nóg af því þegar leið á vorið, hætti í lok apríl, og fékk vinnu í túrhestaversluninni Álafoss, þar sem nú er Kaffi Reykjavík.

Næsta haust fór ég í ensku, og lauk þar fyrsta árs námi. Það var skemmtilegt nám, en af einhverjum ástæðum lagði ég ekki í að ljúka öðru árinu þar. Síðan reyndi ég viðskiptafræði, en leist ekki á bókfærsluna og hætti.

Bísniss
Nýsloppin úr háskólanum fékk ég mér ágætis starf hjá bókaútgáfunni Iðunni, hjá feðgunum Valdimar Jóhannssyni Ásgeiri og Jóhanni Páli. Þar vann ég í tæp tvö ár en hugurinn snerist brátt að viðskiptum og ég keypti Biðskýlið við Suðurgötu, sem lengi gekk undir nafninu „Simma sjoppa.“ Biðskýlið rak ég í eitt ár, en seldi það 1982.

Stofnun fjölskyldu
Ég fann mér mannsefni úr Kópavoginum, Hilmar Ævar Hilmarsson (f. 12. febrúar 1958), sem þá var sendibifreiðarstjóri á Þresti. Við giftum okkur þann 7. ágúst 1982. Ég fór að vinna á lögmannastofu föður míns og bræðra næstum fram að fæðingu dóttur okkar, Sigríðar Ástu, 27. janúar 1983. Þá gaf ég skrifstofustörfin og mótórhjólin upp á bátinn í bili. Pabbi dó í júlí 1983.


Anna Heiða og Hilmar Ævar, Skaftafelli 2004

Haustið 1983 hóf ég nám í snyrtifræði og lauk því með „diploma" vorið 1984. Þá vorum við hjónin búin að setja á stofn snyrtivöruverslunina Lady Rose að Laugavegi 28, sem seinna flutti á Laugaveg 66 og hlaut nafnið Partý. Þann 19. ágúst 1988 fæddist okkur sonurinn Hilmar Ævar, jr., og frúin tók sér um mánaðar hlé frá verslunarrekstrinum. Um skeið voru Partý-verslanirnar tvær, og við ráku þessa verslunina, ásamt saumastofu, fram til 1994. Þá var ég búin að ákveða að leggja saumavélar og afgreiðslustörf á hilluna og fara aftur í nám...

Það var heillaráð að fara að læra aftur, og ég naut þess að drekka í mig fróðleik í enskudeild H.Í., enda voru kennararnir - og samnemendur - með afbrigðum ágætt fólk. Vorið 1995 bauðst mér með milligöngu Martin Regal, kennara við enskudeildina, að komast sem skiptinemi í M.A. nám í viktoríubókmenntum við Háskólann í Liverpool. Ég eyddi hálfu ári í Bítlaborginni og hafði fróðleik og skemmtun af. Og sama sumar fékk ég styrk frá NACS (Nordic Association of Canadian Studies) til að stunda rannsóknir á bókasafni í Manitoba, og var í hálfan mánuð í Winnipeg. Ég lauk B.A. prófi í ensku 1996, og M.A. prófi (með aðaleinkunn 9,25) í sama fagi í október 1999.

Á lærdómsárum mínum lét ég loksins rætast gamlan draum um að skrifa skáldverk. Reyndar hafði mín fyrsta smásaga, ásamt mynd eftir mig, verið birt í barnablaði Tímans þegar ég var um ellefu ára gömul. Ég fékk fyrstu smásöguna mína, „Rauðu eldinguna“ birta í tímaritinu Allt árið 1997 og fyrstu barnabókina, Galdrastafi og græn augu útgefna sama ár. Þá fór ég einnig að skrifa greinar á ensku sem ég fékk birtar í Lögbergi-Heimskringlu, blaði í Vesturheimi.

Eftir útskriftina 1996 fékk ég vinnu hjá Mjólkursamsölunni sem ritari forstjóra, Guðlaugs Björgvinssonar. Sumarið 1998 freistaðist ég til að sækja um styrk til doktorsnáms við University College Worcester á Englandi. Ég hlaut styrkinn. MS reyndist mér frábær vinnustaður, og það var mikil ákvörðun að taka boðinu, en ég varð að slá til og „gera eitthvað úr sjálfri mér.“ Það var erfitt að vera fjarri manni og börnum í nokkra mánuði í einu, en þetta hafðist með dyggum stuðningi þeirra. Ég skilaði inn ritgerðinni í desember 2001 og varði hana 30. janúar 2002. Þannig að ég er orðin doktór.

Sjáðu myndir af mér í skikkjunni HÉRNA.

Nú er ég að vinna sem skrifstofustjóri Alcoa á Íslandi auk þess að fást við hitt og þetta, þýðingar, kennslu og greinaskrif.

Áhugamál
Allt frá barnæsku og á menntaskólaárum hafði ég verið með mikla hestadellu. Hér er t.d. mynd af mér og pabba, Páli S. Pálssyni, sem var tekin þegar ég var um 16 ára gömul:


Með pabba á leiðinni í Fák, 1972.

Á háskólaárunum fékk ég síðan gífurlegan áhuga á mótórhjólum og þeyttist um Reykjavík og nágrannabæi með stöðugt meira á milli fótanna.

Sjá meira um áhugamálin hér.

 

 

Vefmeistari/Webmaster: anna (hjá) ritlist.is