-- Yfirlit
-- 25. mars 2005

 

DAGBÓK

Föstudagurinn langi, 25. mars 2005:
Fyrstadagsumslögin frá einvígi aldarinnar

Í gær vakti ég langt fram eftir nóttu við að skoða frímerkjasafnið mitt sem ég hef ekki litið á í svona 20 ár. Ástæðan var sú að Bobby Fischer var að lenda á Reykjavíkurflugvelli rétt fyrir miðnætti og ég fór að hugsa um öll fyrstadagsumslögin sem ég á frá einvíginu. Þau eru í brúnum bréfpoka, ásamt aðgöngumiða á mótið, öllum teikningunum hans Halldórs Péturssonar (sem voru prentuð á stór póstkort) af Fischer og Spassky, og einhverju fleira dóti. Margt af þessu er áritað af Friðrik Ólafssyni, stórmeistara, og forystumönnum í Skáksambandinu á þeim tíma. Þetta eru örugglega um 50 stimpluð fyrstadagsumslög. Og hvernig komst ég yfir þetta?

Ég var að vinna í sjoppu rétt fyrir ofan Hlemm í kringum 1978-1980. Ekki skúrnum sem seinna varð pizzustaður, heldur var hún í húsaröðinni norðan megin (oddatölur á Laugavegi), mitt á milli rakarastofu og Fiskbúðar Hafliða. Á þessum tíma átti ég Hondu CB750F en það er önnur saga. Einn af fastagestunum í sjoppunni var drykkjuglaður ungur maður sem enn var að drekka út tryggingarbætur sem hann fékk vegna slyss. Einn daginn, þegar hann var nýbúinn að fá bæturnar og hafði fjárfest í tveimur eða þremur kössum af Stolichnaya, bauð hann mér einhverja þúsundkalla fyrir að keyra sig og félaga sinn vestur í Dali til að heimsækja bæinn þar sem hann var í sveit þegar hann var lítill, og ég (sem var peningalaus Háskólanemi) sló til. Þeir röfluðu alla leiðina, fram og tilbaka, en ég var orðin svo vön því að keyra með röflandi, drukkna menn út um allt að það fékk ekkert á mig.

Alla vega, aftur að einvígis-umslaga-safninu. Annan góðan veðurdag, skömmu seinna, voru tryggingapeningarnir, hversu margar milljónir sem það voru, búnir, ásamt þessum 36 flöskum af Stola og örruglega nokkrum til. En félagi minn vildi auðvitað drekka meira. Hann kom hríðskjálfandi með fullt af umslögum í brúnum bréfpoka og bauð mér til kaups. Ég hafði ekki áhuga á skák og vissi lítið um þetta einvígi, og var ekki mjög tilleiðanleg. Á endanum gat hann talið mig á að kaupa það. Ég borgaði honum fimmþúsundkall eða eitthvað sem dugði fyrir tveimur vodkaflöskum. Seinna fór ég til frímerkjasala og spurðist fyrir um verðmætið. Ég var óskaplega spæld að heyra að þetta væri sama og verðlaus pappír vegna þess að upplagið sem var gefið út var svo hátt. Fjárhæðin sem ég fengi dygði varla fyrir einum litlum vodkapela.

En nú lyftist á mér brúnin: Bobby Fischer er orðinn íslenskur ríkisborgari og kominn aftur í fréttirnar. Kannski verður safnið mitt verðmeira fyrir bragðið. Ég verð ánægð er upphæðin nálgast það sem samsvarar tveimur vodkaflöskum. „Break even“ eins og sagt er á ensku.

Eitt er öruggt að ég var ekki sú eina sem gróf upp gamla einvígisdótið sitt, alveg eins og ég er ekki sú eina sem sótti um lóð í Lambaseli og ekki sú eina sem borðar páskaegg á sunnudaginn. Við erum óttalegar hópsálir, Íslendingar, og ég viðurkenni að vera hluti af þessari aumu þjóð, rétt eins og Bobby Fischer.

Hann fær samt ekki lóð í Lambaselinu vegna þess að hann hefur bara búið í Reykjavík eina nótt.

 

 

Vefmeistari/Webmaster: anna (hjá) ritlist.is